Fréttasafn



29. jan. 2026 Almennar fréttir Orka og umhverfi

SI mótfallin frumvarpi um lagaumgjörð vindorkukosta

Samtök iðnaðarins hafa skilað inn umsögn um frumvarp til breytingu á lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun (vindorka og verndarflokkur). Samtökin eru mótfallin framgangi frumvarpsins.

Frumvarpið felur í sér að virkjunarkostir í vindorku verði meðhöndlaðir innan rammaáætlunar en þó með þeim hætti að hagnýting vindorku verði ekki heimil á stórum svæðum. Þá verður verkefnastjórn gert að líta til sérstakra þátta við mat á vindorkukostum umfram aðra virkjunarkosti og vindorkukostir undanþegnir þeirri meginreglu laganna að verndar- og orkunýtingaráætlun sé bindandi gagnvart skipulagsvaldi sveitarfélaga.

Með frumvarpinu eru stór svæði fyrirfram útilokuð frá vindorkunýtingu, m.a. svæði í einkaeigu. Samtökin telja skorta á umfjöllun um eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar sem og jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Ákvæði um sérstök sjónarmið við vindorkukosta sé ekki til þess fallið að stuðla að aukinni skilvirkni eða draga úr óvissu. Þá séu engin rök fyrir því að lögfesta sérstök sjónarmið fyrir vindorkukosti umfram aðra kosti.

Samkvæmt frumvarpinu virðist sá möguleiki enn fremur uppi að vindorkukostir fari í gegnum langt ferli rammaáætlunar til þess eins að sveitarfélög beiti neitunarvaldi sínu. Samtökin gera verulegar athugasemdir við framangreinda tillögu. Það er grundvallaratriði í lögum nr. 48/2011 að verndar- og orkunýtingaráætlun sé bindandi við gerð skipulagsáætlana og sveitarstjórnir skuli samræma gildandi svæðis- aðal- og deiliskipulagsáætlanir að áætluninni innan fjögurra ára frá samþykkt hennar. Sé það ætlunin að færa sveitarfélögum ákvörðunarvald um uppbyggingu vindorkuvera er rétt að undanskilja vindorkukosti gildissviði laga nr. 48/2011 í heild sinni.

Hér er hægt að nálgast umsögn SI í heild sinni.