Fréttasafn24. apr. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Lögfræðileg málefni

SI mótfallin nafnabreytingu á Einkaleyfastofu

Samtök iðnaðarins eru mótfallin því að nafni Einkaleyfastofunnar verði breytt í Hugverkastofan. Í umsögn SI um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna heiti Einkaleyfastofunnar, 371. mál, sem sent hefur verið Atvinnuveganefnd Alþingis segir að heitið Hugverkastofan bendi til þess að stofnunin hafi með höndum víðtækari og meiri starfsemi en hún hefur í raun og veru. Að mati SI er það rangt að ábyrgðarsvið Einkaleyfastofunnar „tengist hugverkaréttindum almennt“ þar sem Einkaleyfastofan hefur með höndum þrjá af fjórum meginþáttum hugverkaréttinda og því er Hugverkastofan villandi heiti.   

Þá benda SI á að í greinargerð með frumvarpinu segi að nokkrar erlendar hugverkastofur hafi á liðnum árum fengið ný heiti sem lýsi betur starfsemi þeirra og sé sú þróun m.a. í takt við aukinn skilning á hugverkum. Í umsögninni segir að óljóst sé hvaða erlendu stofnanir um ræðir og í samanburði við nágrannalönd sé ljóst að einkaleyfaskírskotunin sé ríkjandi hvað varðar heiti sambærilegra stofnana sbr. Finnish Patent & Registration office (Finnland), Danish Patent and Trademark office (Danmörk), The Swedish Patent and Registration office (Svíþjóð) og Norwegian Industrial Property Office (Noregur).

Í niðurlagi umsagnarinnar kemur fram að SI leggja áherslu á að aukinn skilningur á hugverkum sé fagnaðarefni. Þá kunni vel að vera að heitið Einkaleyfastofan feli í sér of þrönga skírskotun og lýsi ekki með fullnægjandi hætti þeirri starfsemi sem fram fer í stofnuninni. Það sé því mat SI að Hugverkastofan feli í sér allt of breiða skírskotun og sé mun frekar til þess fallið að vera villandi en núverandi heiti Einkaleyfastofunnar. SI mótmæla þannig frmvarpinu í heild sinni.

Hér má nálgast umsögnina.