Fréttasafn



31. ágú. 2022 Almennar fréttir Klæðskera og kjólameistarafélagið Ljósmyndarafélag Íslands Meistarafélag húsasmiða Menntun Samtök fyrirtækja í málm– og skipaiðnaði Starfsumhverfi

SI og fjögur aðildarfélög mótmæla reglugerð um afnám lögverndunar

Samtök iðnaðarins og fjögur aðildarfélög mótmæla framlögðum reglugerðardrögum um lögverndun iðngreina, mál nr. 107/2022, þar sem lagt er til að afnema löggildingu 17 iðngreina líkt og kemur fram í fimm umsögnum  sem sendar hafa verið háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Auk Samtaka iðnaðarins eru það Meistarafélag húsasmiða, Málmur - samtök fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði, Klæðskera- og kjólameistarafélagið og Ljósmyndarafélag Íslands sem mótmæla þessum áformuðu breytingum ráðherra.

Samtök iðnaðarins telja nauðsynlegt að heildstæð endurskoðun fari fram á iðnlöggjöfinni og meðfylgjandi reglum eins og lengi hafi verið stefnt að. Slík endurskoðun sé nauðsynleg og tímabær en afar óheppilegt sé að ráðist sé í að afnema lögverndun einstakra iðngreina án þess að haft sé samráð við þá aðila sem standa að kerfi iðnmenntunar í landinu um hvaða forsendur sé rétt að leggja til grundvallar.

Hvetja til að málið verði afturkallað

Þá segir í umsögninni að standi ennfremur til að gera frekari breytingar á lögum um handiðnað, líkt og samtökin hafi kallað eftir, þá telji samtökin eðlilegt að málið sé endurskoðað með heildstæðum hætti. Samtökin hvetja því til þess að málið verði afturkallað, sett í faglegra ferli og betur gætt að lögbundnu samráði við þá aðila sem standi að iðnmenntun í landinu. 

Hafna því að umsagnarferlið fullnægi lagakröfum

Í umsögninni kemur fram að það eigi að vera lögbundið ferli við upptöku nýrra iðngreina, breytingu þeirra eða afnám. Það feli í sér samráð við menntamálaráðherra og landssamtök meistara og sveina á viðkomandi sviði. Viðurkennt sé með þessu ferli hversu órjúfanleg tengsl séu á milli löggildingu iðngreina og menntakerfisins. Þetta lögbundna ferli hafi ekki átt sér stað við undirbúning þessarra reglugerðardraga og hafni samtökin því að umsagnarferlið sem nú er í gangi á samráðsgátt, fullnægi þeim lagakröfum.

Ítreka beiðni til ráðherra að starfshópur fái að ljúka störfum 

Þá segir í umsögn SI að meistarafélög innan SI hafi kallað eftir umbótum á iðnlöggjöfinni til að bæta starfsumhverfi þeirra þúsunda einstaklinga og fyrirtækja sem starfi í iðnaði og efli íslenskan iðnað. Samtökin hafi lagt sitt af mörkum í vinnu starfshóps um efnið og sé nauðsynlegt að breytingar, eins og þær sem lagðar séu til í reglugerðardrögunum, séu skoðaðar með heildstæðari hætti. Í umsögninni segir að starfshópurinn hafi ekki fengið að ljúka störfum sínum þrátt fyrir beiðni SI þess efnis og séu tillögurnar sem nú séu lagðar fram ekki afrakstur þess hóps. Samtökin ítreka beiðni sína til ráðherra um skipa að nýju umræddan starfshóp svo unnt sé að ljúka þeirri vinnu sem fyrri iðnaðarráðherra fól hópnum.

Löggilding mikilvæg í íslensku iðnmenntakerfi og í iðnaði

Í niðurlagi umsagnarinnar segir að löggilding iðngreina hafi lengi verið mikilvægur þáttur í íslensku iðnmenntakerfi og í iðnaði. Þúsundir manna starfi í umræddum greinum og byggi á lögunum starfsréttindi sín. Samtökin ítreka þá afstöðu sína að tækifæri séu til jákvæðra breytinga á regluverki iðnaðarins, með það að markmiði að auka skilvirkni laganna og bæta eftirfylgni en horfa þurfi á málið með heildstæðum hætti. Hvetja því samtökin til þess að málið verði afturkallað, sett í faglegra ferli og starfshóp ráðherra um endurskoðun laganna verði gert að ljúka störfum.

Hér er hægt að nálgast allar fimm umsagnirnar: