Fréttasafn18. okt. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

SI og SA vilja að frumvarp verði dregið til baka

Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins vilja að frumvarp innviðaráðherra um breytingu á skipulagslögum verði dregið til baka og vinnuhópur skipaður sem verði falið að meta forsendur ákvæðisins og útfærslu. Þetta kemur fram í umsögn SI og SA um frumvarp um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010 (hagkvæmar íbúðir), 183. mál. Í umsögninni lýsa samtökin sig viljug til að koma að þeirri vinnu. 

Í umsögninni segir meðal annars að íbúðaverð hafi hækkað um meira en helming að nafnvirði á innan við þremur árum og tvöfaldast að raunvirði á síðastliðnum áratug. Aukið framboð íbúða á markaði væri helst til þess fallið að draga úr húsnæðiskostnaði, ekki síst nú þegar áætluð fólksfjölgun sé veruleg. Það sé því ábyrgðarhlutverk stjórnvalda að innleiða regluverk sem flýti fyrir uppbyggingu og útiloki regluverk sem tefji fyrir eða skapar réttaróvissu.

Gullhúðað ákvæði sem skilað hefur litlu

Í umsögninni er sagt að hið svokallaða Carlsberg-ákvæði úr danskri löggjöf hafi skilað litlu en ákvæðið var lögfest þar í landi 2015 en einungis 8 af 98 sveitarfélögum í Danmörku hafi nýtt sér heimildina frá mars 2015 til apríl 2020. Á umræddum tíma hafi verið byggðar 10.400 íbúðir á reitum sem þessi 8 sveitarfélög beittu ákvæðinu á en aðeins 6% eða 635 svokallaðar almene boliger hafi verið byggðar á grundvelli ákvæðisins frá upphafi. Það sé því óhætt að fullyrða að ákvæðið hafi ekki skilað þeim árangri sem því hafi verið ætlað. Það sé því að mati samtakanna mjög óeðlilegt að innleiða umrætt ákvæði hér á landi án þess að leggjast í umtalsvert betri rannsóknarvinnu og undirbúning en raun beri vitni. Þá sé það enn fremur óskiljanlegt að mati samtakanna að ráðast í gullhúðun á umræddu ákvæði sem svo litlu virðist hafa skilað. Innleiðing ákvæðisins með þessari gullhúðun muni hafa enn frekari lögfræðilega óvissu í för með sér sem gæti hægt á nauðsynlegri uppbyggingu húsnæðis

Hér er hægt að nálgast umsögnina.