Fréttasafn19. okt. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Samtök rafverktaka

SI og SART svara athugasemdum Rafbílasambands Íslands

Samtök iðnaðarins og Samtök rafverktaka, SART, hafa svarað erindi Rafbílasambands Íslands sem hefur gert athugasemdir við bréf sem sent var á félagsmenn SART á síðasta ári er varðar kröfur um hleðslustöðvar. Svarið var sent á stjórn Rafbílasambands Íslands, þá Tómas Kristjánsson, Guðjón Hugberg Björnsson og Emil Kára Ólafsson.

Bréfið sem sent var á stjórn Rafbílasambands Íslands fer hér á eftir og er undirritað af Kristjáni Daníel Sigurbergssyni, framkvæmdastjóra SART og viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI.

„Ágætu stjórnarmenn Rafbílasambands Íslands, 

Ég vísa í meðfylgjandi tölvupóstsendingar frá formanni félagsins, Tómasi Kristjánssyni, frá 4. nóvember 2022 og 15. október 2023. Ég hef borið erindi sambandsins undir framkvæmdastjórn SART sem vill koma eftirfarandi á framfæri þó svo að hún telji tíma mínum betur varið í að þjónusta félagsmenn sína. 

Eins og ykkur er kunnugt um er búið að kæra ákvörðun Orkustofnunar sem formaður Rafbílasambands Íslands vísar til í sendingunum. Það mál er í eðlilegum farvegi eftir því sem við best vitum.

Þangað til gildir afstaða Orkustofnunar en vegna áframhaldandi óvissu um endanlega niðurstöðu standa, þá sem nú, upphaflegar leiðbeiningar SART til félagsmanna óbreyttar þ.e.:

„Séu þið í vafa um það hvort þær hleðslustöðvar sem þið eruð að þjónusta eða selja uppfylli kröfur laga hvetjum við ykkur til að leita ráðgjafar hjá HMS.“ 

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur sinnt þessu leiðbeiningarhlutverki sínu eftir bestu getu samkvæmt því sem SART kemst næst.

Það sem formaður Rafbílasambands Íslands kallar „ glórulaus fyrirmæli “ er eðlileg upplýsingarmiðlun til félagsmanna SART sem eru löggiltir rafverktakar og bera ríka lagalega og faglega ábyrgð gagnvart viðskiptavinum sínum. 

Þessir aðilar eru að fylgjast með framvindu málsins ef það varðar starfsemi þeirra. SART mun leita til Bílgreinasambandsins og þeirra fagþekkingar ef spurningar vakna tengdar þessu máli sem ekki er hægt að fá svar við hjá HMS.  

Framkvæmdastjórn SART undrast orðavalið sem formaður Rafbílasambands Íslands notast við og þá reiði sem virðist ríkja hjá stjórn Rafbílasambands Íslands gagnvart þessari upplýsingargjöf til félagsmanna SART. 

Vissulega eru hagsmunir í húfi hjá aðilum málsins en hagsmunir löggiltra rafverktaka felast aðeins í því að notast við þann búnað sem löglegur er hverju sinni og uppfyllir kröfur eftirlitsaðila. 

Í ljósi framangreinds ítrekar stjórn SART því að upplýsingar sem veittar voru til félagsmanna í umræddum pósti á síðasta ári voru byggðar á gögnum frá eftirlitsaðilum og það verður ekki tekin afstaða til búnaðar, hvorki með eða móti.  

Þurfa rafverktakar því áfram að fylgjast með eftir því sem málið vinnst hjá stjórnvöldum og á meðan að ekki er komin endanleg niðurstaða í málið munum við ekki gefa út aðrar leiðbeiningar.

Þar með standa fyrri leiðbeiningar þ.e.: 

„Séu þið í vafa um það hvort þær hleðslustöðvar sem þið eruð að þjónusta eða selja uppfylli kröfur laga hvetjum við ykkur til að leita ráðgjafar hjá HMS.““