Fréttasafn



4. nóv. 2021 Almennar fréttir Orka og umhverfi Starfsumhverfi

SI óska eftir útskýringum á gjaldskrárhækkun Sorpu

„Við teljum mikilvægt að gjaldtöku fyrirtækja eins og Sorpu og annarra opinberra stofnana og fyrirtækja sé stillt í hóf,“ segir Björg Ásta Þórðardóttir, yfirlögfræðingur SI, þegar Morgunblaðið leitað álits hennar á boðaðri 31% hækkun á gjaldskrá Sorpu en Samtök iðnaðarins hafa óskað eftir nánari útskýringum á boðuðum gjaldskrárhækkunum Sorpu. 

Dæmi um nærri 300% hækkun í gjaldskrá Sorpu

Í fréttinni segir að Björg Ásta rifji upp að miklar hækkanir hafi orðið á einstökum liðum í verðskrá Sorpu um síðustu áramót. Dæmi voru um nærri 300% hækkun. Þá er boðuð 31% hækkun gjaldskrár Sorpu í greinargerð með fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár. Björg segir í fréttinni að óskað hafi verið eftir upplýsingum frá Sorpu um þær breytingar sem orðið hafi á gjaldtöku fyrirtækisins um síðustu áramót og það sem fram undan er. Hún segir að engin svör hafi borist enn sem komið er en fundað verði með forsvarsmönnum fyrirtækisins í næstu viku. Vonast hún til að þá liggi fyrir betri upplýsingar um forsendur hækkana. 

Gjaldskráin endurspegli kostnað við hvern úrgangsflokk

Þá segir í frétt Morgunblaðsins að Björg taki fram að Samtök iðnaðarins leggi áherslu á að bæta meðhöndlun úrgangs en á sama tími telji þau mikilvægt að sveitarfélögin, sér í lagi fyrirtæki þeirra sem eru í einokunarstöðu við móttöku og meðferð úrgangs, gæti aðhalds við kostnaðarhækkanir. Jafnframt sé mikilvægt að gjaldskráin endurspegli sem best kostnað við hvern úrgangsflokk fyrir sig. Getur hún þess að félagsmaður í Samtökum iðnaðarins hafi fyrr á þessu ári sent Samkeppniseftirlitinu kvörtun vegna hækkunar gjaldskrár um síðustu áramót. 

Síðasta gjaldskrárbreyting Sorpu frekar letjandi en hvetjandi

Jafnframt segir Björg í Morgunblaðinu að erfitt sé að skilja hækkanir á gjaldskrá vegna flokka þar sem engin breyting hafi orðið á meðhöndlun. Í þeim tilvikum sé ekki hægt að vísa til aukins kostnaðar við nýju gas- og jarðgerðarstöðina, Gaja. „Ekki má heldur gleyma því að gjaldskráin þarf að hvetja til aukinnar flokkunar úrgangs og endurvinnslu. Síðasta gjaldskrárbreyting gerði það ekki og var í sumum tilvikum frekar letjandi en hvetjandi.“ 

Morgunblaðið, 4. nóvember 2021.

Morgunbladid-04-11-2021-2-