Fréttasafn3. jún. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

SI skora á Reykjavíkurborg að fara í útboð á LED-væðingu

Samtök iðnaðarins hafa sent borgarstjóra áskorun um að Reykjavíkurborg fari í útboð á viðhaldi, rekstri og LED-væðingu götulýsingar í kjölfar á úrsskurði þar sem borginni er gert að bjóða út þjónustu við útskiptingu og uppsetningu LED-lampa í Reykjavík.

Í bréfinu kemur fram að Samtök iðnaðarins skorar á Reykjavíkurborg að bjóða hið fyrsta út viðhald, rekstur og LED-væðingu götulýsingar í Reykjavík. Þann 19. maí sl. kvað kærunefnd útboðsmála upp úrskurð í mál nr. 17/2020 Samtök iðnaðarins gegn Reykjavíkurborg og Orku náttúrunnar ohf. þar sem kærunefnd lagði fyrir Reykjavíkurborg að bjóða út þjónustu við útskiptingu og uppsetningu LED-lampa í Reykjavík. 

Í bréfinu segir að ráða megi af rökstuðningi kærunefndar að rekstur og viðhald götulýsingar teljist til útboðsskyldrar þjónustu í skilningi laga um opinber innkaup, nr. 120/2016. Samtökin telja brýnt að brugðist sé hratt við úrskurði nefndarinnar og hafist sé strax handa við útboðið. Hagsmunir bjóðenda séu miklir.

Þá minna samtökin á að þau óskuðu fyrst eftir upplýsingum um viðskipti Reykjavíkurborgar við Orku náttúrunnar með erindi þann 10. september 2019, þar á meðal aðgengi að samningi Reykjavíkurborgar við ON um viðhald og rekstur götulýsingar í Reykjavík. Til að fá aðgang að öllum umbeðnum gögnum var SI nauðugur einn sá kostur að reka málið fyrir úrskurðarnefnd upplýsingamála sem kvað upp úrskurð sinn þann 22. apríl 2020. Miðað við fyrirliggjandi gögn þótti SI ljóst að Reykjavíkurborg hefði brotið gegn útboðsskyldu sinni með því að bjóða ekki út umrædd viðskipti í samræmi við lög um opinber innkaup. Nú, rúmu einu og hálfu ári síðar, liggur niðurstaða um útboðsskyldu Reykjavíkurborgar loks fyrir.

Jafnframt kemur fram í bréfinu að samkvæmt gögnum frá Reykjavíkurborg megi áætla að á árunum 2021-2025 nemi kostnaður við rekstur, viðhald og LED-væðingu götulýsingar um 2,8 milljarða króna. Umtalsverðir hagsmunir séu undir bæði hjá Reykjavíkurborg, um að efna til samkeppni um innkaupin til að skapa aukna hagkvæmni í umræddum viðskiptum, og fyrir markaðinn að fá að bjóða í svo stórt verk.

Í niðurlagi bréfsins kemur fram að Samtök iðnaðarins óski eftir afstöðu Reykjavíkurborgar til framangreindrar áskorunar og upplýsinga um hvenær útboðs á viðhaldi, rekstri og LED-væðingu götulýsingar í Reykjavík sé að vænta. Samtökin ítreka að málið hafa gríðarlega þýðingu fyrir bjóðendur og því brýnt að það tefjist ekki lengur innan stjórnsýslunnar.

Hér er hægt að nálgast bréfið í heild sinni.