Fréttasafn



23. okt. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

SI styðja lög um rýni á fjárfestingum erlendra aðila

Samtök iðnaðarins, SA, Samorka, SFF, SVÞ, SAF og Viðskiptaráð, hafa skilað sameiginlegri umsögn um frumvarp til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila. Í umsögn sinni taka samtökin undir mikilvægi þess að hér á landi verði sett rýnilöggjöf um erlendar fjárfestingar. Því til stuðnings vísa samtökin í breyttar aðstæður á alþjóðamörkuðum, meðal annars vegna gervigreindarbyltingarinnar og aukinnar áherslu á öryggis- og varnarmál, sem kalla á að hérlendis sé í gildi rýnilöggjöf sem stenst alþjóðlegan samanburð. Í umsögn sinni leggja samtökin áherslu á að löggjöfin sé einföld, gagnsæ og skýr og ekki sé gengið lengra en nauðsyn krefur og samræmis milli ríkja sé gætt. Samtökin leggja þó mikla áherslu á að nokkrir þættir frumvarpsins verði endurskoðaðir, meðal annars er lúta að víðtæku gildissviði laganna og valdheimildum ráðherra við skilgreiningu á hvort tiltekin starfsemi þurfi að undirgangast rýni ásamt endurskoðun á skilgreiningu erlendra aðila og tengdra aðila.

Hér er hægt að nálgast umsögnina.