Fréttasafn



25. ágú. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

SI telja að stíga eigi annað skref í lækkun stýrivaxta

Samtök iðnaðarins telja að peningastefnunefndin eigi að stíga annað skref í lækkun stýrivaxta á vaxtaákvörðunarfundi sínum í þessari viku en vaxtaákvörðun nefndarinnar verður kynnt á morgun, miðvikudaginn 26. ágúst. Með frekari lækkun vaxta styður nefndin við efnahagsbata og stuðlar að því að hann verði hraðari en ella. Með lækkun stýrivaxta vinnur bankinn að því að hér á landi skapist störf og dregið verði úr því þungbæra atvinnuleysi sem heimili landsins eru að glíma við. Auk þess þarf bankinn, að mati samtakanna, að vinna áfram að því að tryggja að lausara taumhald peningastefnunnar miðlist að fullu til heimila og fyrirtækja í landinu.

Atvinnuleysi-agust-2020

Mikið og hratt vaxandi atvinnuleysi stórt efnahagsvandamál

Hratt vaxandi atvinnuleysi og fækkun starfa eru ein af dekkstu birtingarmyndum versnandi efnahagsástands um þessar mundir. Í júlí voru ríflega 21 þúsund manns atvinnulausir eða á hlutabótum sem er 8,7% vinnuaflsins. Flestir eru atvinnulausir í almenna bótakerfinu eða ríflega 17 þúsund manns og hefur þeim fjölgað ört undanfarna mánuði. Á sama tíma hefur fjöldi starfandi fækkað verulega eða um ríflega 13,5 þúsund á síðustu 12 mánuðum.

Mætum versnandi efnahagshorfum með aðgerðum

Efnahagshorfur hafa versnað undanfarið enda hefur veirufaraldurinn verið meira langvarandi bæði hér og í öðrum ríkjum en reiknað var með í fyrstu. Líkur eru nú á því að lengra verði í að uppsveiflan hefjist hér af krafti.

Mjög mikilvægt er að nýta tæki hagstjórnar til að vinna á móti versnandi horfum í efnahagsmálum og skapa störf til að draga úr þeirri neikvæðu stöðu sem komin er upp á íslenskum vinnumarkaði og í hagkerfinu öllu. Lækkun stýrivaxta Seðlabankans og aðgerðir í opinberum fjármálum sem miða að því að skapa viðspyrnu fyrir hagkerfið eru afar stór þáttur í því.

Verðbólguvæntingar við markmið eru kjölfesta fyrir frekari aðgerðir

Gengi krónunnar hefur gefið nokkuð eftir undanfarið. Það hefur hjálpað til við að bæta samkeppnisstöðu þeirra innlendu fyrirtækja sem helst keppa við erlend. Skapar það störf í þeim greinum. Neikvæði hluti þeirrar þróunar er að verðbólga hefur aukist og verðbólguvæntingar hækkað aðeins. Miklu máli skiptir hins vegar að verðbólguvæntingar til lengri tíma haldist lágar og við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Líkt og peningastefnunefndin hefur sjálf bent á gefur traust kjölfesta verðbólguvæntinga nefndinni kleift að bregðast við versnandi efnahagshorfum með afgerandi hætti.