Fréttasafn11. sep. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

SI telja ekki nægilega langt gengið í breytingum á skipulagslögum

Í umsögn Samtaka iðnaðarins um áform um frumvarp til breytinga á skipulagslögum nr. 123/2020 sem send hefur verið umhverfis- og auðlindaráðuneytinu kemur fram að samtökunum þyki ekki nægilega langt gengið í breytingum á skipulagslögum. Þar kemur meðal annars fram að finna þurfi leiðir til að leyfisveitingar gangi betur fyrir sig, taki skemmri tíma og tryggi samræmi í vinnubrögðum milli aðila sem koma að ferlinu. Einnig að bæta þurfi vinnu við undirbúning framkvæmda sem ætti að gera alla málsmeðferð hraðari og skilvirkari og að einfalda þurfi lagaumhverfi og gera það skýrara frá upphafi til enda. 

Aukin rafræn stjórnsýsla löngu tímabær

Í umsögninni kemur fram að SI fagni því að stjórnvöld séu að huga að aukinni rafrænni stjórnsýslu, slíkt sé löngu tímabært. Samtökin telja þó varhugavert að ríkisstofnanir byggi upp afmarkaðar gáttir, hver um sig og fyrir aðskilda stjórnsýsluferla en með því sé einungis hluti vandans leystur. Færa ætti fleiri stjórnsýsluferla og opinbera þjónustu í rafrænar gáttir og tengja þær saman. 

Vonbrigði með meðferð tillagna um átak í húsnæðismálum

Þá kemur fram í umsögninni að meðferð tillagna starfshóps um átak í húsnæðismálum hafi verið vonbrigði og ekki í samræmi við þær væntingar sem uppi hafi verið í kjölfar skýrslu átakshóps um húsnæðismál. Þar er sérstaklega vísað í tillögur 19. og 20. sem segja: að hið flókna og tímafreka ferli við breytingar á deiliskipulagi, sem seinkar uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og eykur byggingarkostnað, verði einfaldað og sveigjanleiki í deiliskipulagi og skipulagsskilmálum þeirra verði aukinn en það hvetur til nýrra og hagkvæmari lausna í mannvirkjagerð sem skilar sér í lægri byggingarkostnaði, án þess þó að gerðar séu minni kröfur um umhverfisgæði bygginga og vistspor framkvæmda. 

Hér er hægt að nálgast umsögn SI í heild sinni.