Fréttasafn



30. jan. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

SI telja svigrúm til að lækka stýrivexti frekar

Samtök iðnaðarins telja að verðbólga og verðbólguvæntingar við markmið gefi peningastefnunefnd Seðlabankans svigrúm til þess að lækka stýrivexti frekar og draga þannig úr efnahagssamdrættinum. Telja samtökin að samhliða þurfi Seðlabankinn að grípa til aðgerða til að tryggja að miðlunarferli vaxta virki sem skyldi og að framboð af lánsfé sé nægjanlegt til að tryggja vöxt efnahagslífsins. Tilkynnt verður um næstu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans næstkomandi miðvikudag 5. febrúar.

Dregið hefur umtalsvert úr nýjum útlánum til fyrirtækja undanfarið og munur á vaxtakjörum nýrra útlána til þeirra og meginvaxta aukist. Að mati Samtaka iðnaðarins er þetta mikið áhyggjuefni. Ýmsir þættir í starfsemi fjármálafyrirtækja hafa ráðið þessari þróun. M.a. hafa breyttar efnahagshorfur leitt til endurmats á verðlagningu og áhættu útlána. Án aðgerða er líklegt að þetta muni auka við dýpt niðursveiflunnar. Misráðið er að mati samtakanna við þessar aðstæður að hækka eiginfjárauka fjármálafyrirtækja líkt og stefnt er að nú um mánaðarmótin. Með hækkuninni er dregið úr útlánagetu bankanna.

Verdbolga-og-styrivextir_1580377682846

Útlit fyrir hægan gang í hagkerfinu í ár

Undanfarið hafa líkur um skjótan viðsnúning hagkerfisins í ár eftir engan hagvöxt á síðasta ári verið að dvína. Útlit er fyrir að hægur gangur verði í hagkerfinu í ár. Samdráttur hefur verið í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins og fjárfestingu atvinnuveganna sem mun halda áfram á þessu ári. Ýmsar neikvæðar fréttir hafa borist af gjaldeyrisskapandi greinum, þ.e. sjávarútvegi, orkusæknum iðnaði og ferðaþjónustu, nú í upphafi árs en því til viðbótar hafa hagvaxtarhorfur í helstu viðskiptalöndunum verið að versna. Einnig hefur hægt verulega á vexti einkaneyslu og fjárfestingu heimilanna en samdráttur er í störfum og atvinnuleysi vaxandi.

Verðbólga er nú 1,7% og verðbólguvæntingar til lengri og skemmri tíma undir eða við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Meginvextir Seðlabankans eru nú 3,0% og raunstýrivextir því 1,3% miðað við verðbólgu en nokkru lægri m.v. verðbólguvæntingar. Hefur taumhald peningastefnunnar lítið breyst frá miðju síðastliðnu ári þrátt fyrir versnandi efnahagshorfur og lækkandi verðbólgu og verðbólguvæntingar.

Á síðasta fundi Peningastefnunefndar í desember síðastliðnum ákvað nefndin einróma að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum. Taldi nefndin þá rétt að staldra við og sjá hver áhrifin yrðu af þeim aðgerðum sem þegar hafði verið gripið til en nefndin hafði þá lækkað vextir bankans um samtals 1,5 prósentur frá því í apríl á því ári. Rót lækkunar stýrivaxta bankans, þ.e. samdráttur í efnahagslífinu, er ekkert fagnaðarefni en jákvætt er að peningastefnunefndin sýni í verki viðleitni sína til að beita þessu mikilvæga stýritæki til að milda niðursveifluna í efnahagslífinu. 

Fréttablaðið, 30. janúar 2020.

Viðskiptablaðið, 30. janúar 2020.

Morgunblaðið, 31. janúar 2020.