Fréttasafn22. ágú. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

SI telja svigrúm til frekari lækkunar stýrivaxta

Samtök iðnaðarins telja að full ástæða sé fyrir peningastefnunefnd Seðlabankans að stíga annað skref í lækkun stýrivaxta við næstu vaxtaákvörðun sem kynnt verður 28. ágúst nk. Skýr merki eru um samdrátt í hagkerfinu. Verðbólga og verðbólguvæntingar hafa haldist við markmið um nokkurn tíma og gefur það Seðlabankanum svigrúm til að lækka vexti til þess að hjálpa fyrirtækjum og heimilum að takast á við niðursveifluna. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI sem ber yfirskriftina Seðlabankinn til bjargar

Þá kemur fram í greiningunni að Seðlabankinn hafi lækkað vexti um 0,75 prósentur síðan í maí á þessu ári. Meginvextir Seðlabankans, þ.e. vextir á sjö daga bundnum innlánum, séu nú 3,75% og nægt svigrúm til að lækka þá frekar að mati Samtaka iðnaðarins. Telja samtökin að dýpt niðursveiflunnar sem nú sé hafin í efnahagslífinu velti m.a. á því hversu hratt verði brugðist við í hagstjórn. Skipti þar miklu máli hvort peningastefnunefnd Seðlabankans lækki stýrivexti bankans nægjanlega hratt og mikið.

Skýr merki um samdrátt

Í greiningunni kemur fram að skýr merki séu um samdrátt eftir átta ára samfelldan hagvöxt. Fækkun ferðamanna um 13% á fyrstu sjö mánuðum þessa árs, atvinnuleysi 3,4% í júlí á landinu öllu í samanburði við 2,2% í sama mánuði í fyrra og dregið hefur úr innflutningi vinnuafls á þessu ári. Þá sé samdráttur í sementssölu og innflutningi byggingarefnis ásamt fækkun skoðaðra krana merki um breyttan gang í fjárfestingu í hagkerfinu. Samhliða þessari þróun hafi hægt á vexti einkaneyslu.

Atvinnuleysi-agust-2019

Verðbólga við 2,5% markmið

Í greiningunni segir að verðbólgan hafi náð hámarki í desember síðastliðnum þegar hún mældist 3,7% en hafi hjaðnað síðan og mælist nú 3,1%. Þá segir að líklegt sé að verðbólgan halda áfram að hjaðna á næstunni. Líkt og peningastefnunefnd Seðlabankans hafi bent á í yfirlýsingum sínum undanfarið sé svigrúm bankans til að mæta efnahagssamdrættinum töluvert, sérstaklega þegar verðbólga og verðbólguvæntingar haldast við verðbólgumarkmið bankans. Þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga undanfarið sé í þessu ljósi sérstakt fagnaðarefni en hún skapi Seðlabankanum tækifæri til að beita hagstjórnartækjum sínum til þess að milda niðursveifluna í efnahagslífinu og hjálpa þannig bæði fyrirtækjum og heimilum að takast á við efnahagssamdráttinn.

Verdbolga-og-verdbolguvaentingar

 

Hér er hægt að nálgast greiningu SI í heild sinni.