Fréttasafn26. apr. 2017 Almennar fréttir Lögfræðileg málefni

SI telja veiðigjald of hátt í öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni

Samtök iðnaðarins telja að veiðigjald sé of hátt í frumvarpi um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni), 272. mál. Þetta kemur meðal annars fram í umsögn SI sem send hefur verið Atvinnuveganefnd Alþingis. Þó samtökin fagni því að stjórnvöld hugi að betra utanumhaldi með auðlindinni sjávargróður þá benda þau á að sjávargróður fer í allt annað vinnsluferli en fiskur. Aðeins um 15-20% af þurrefni komi úr því sem er landað og fyrirhugað gjald falli því þungt á aflaverðmætið. Bent er á að afurðir frá Íslandi séu seldar erlendis í harðri samkeppni á alþjóðamarkaði og æskilegt að ekki sé gengið lengra hérlendis en annars staðar og tiltekið dæmi um að gjaldið á Bretlandseyjum sé 80 evrusent – 1 evra á tonn ef þangið er notað í fóður. 

Þá gera SI athugasemd við heimild ráðherra til að mæla fyrir um, með reglugerð, að enginn megi starfrækja stöð til móttöku þangs til þurrkunar og frekari vinnslu, í atvinnuskyni, frá tilteknum afmörkuðum svæðum nema hafa til þess leyfi Fiskistofu. Bent er á að þannig sé ráðherra veitt heimild til að takmarka atvinnufrelsi sem varið er í 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 með nokkuð opnum og víðtækum hætti. Það er mat SI að hætt sé við að ákvæði frumvarpsins, verði það að lögum, feli í sér of víðtækt valdframsal til ráðherra.  

Hér er hægt að nálgast umsögnina