Fréttasafn5. sep. 2016 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

SI tók þátt í umræðum á Fundi fólksins

Samtök iðnaðarins tóku þátt í Fundi fólksins í Norræna húsinu um helgina á þremur vígstöðvum; í umræðum um húsnæðismarkaðinn, um skapandi greinar og um mikilvægi hugverks í sköpun nýrra verðmæta. Þetta er í annað sinn sem Fundur fólksins er haldinn en um er að ræða tveggja daga lýðræðis- og stjórnmálahátíð þar sem markmiðið er að skapa meira traust og skilning milli ólíkra aðila samfélagsins.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, stýrði umræðum um húsnæðismál ungs fólks en mikill skortur er á litlum íbúðum sem eru á viðráðanlegu verði. Yfirskrift fundarins var „Hvernig í fjandanum á ungt og efnaminna fólk að hafa efni á að eignast þak yfir höfuðið – sæmilegt að gæðum?“. Í pallborðinu var meðal annarra Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem lagði áherslu á mikilvægi þess að boðið væri upp á fjölbreyttar lausnir því ekki væri hægt að vera með eina lausn sem hentaði öllum. Umræðan snérist einnig um breytingar sem hafa orðið á þörfum fólks í skipulagi heimila, mögulegar úrlausnir og breytingar á byggingareglugerð.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, tók þátt í umræðum á vegum Bandalags íslenskra listamanna, BÍL, þar sem fram fór samtal listamanna og aðila vinnumarkaðarins um stefnu og strauma í málefnum þeirra er sinna skapandi og listrænum störfum og aðkomu þeirra að vinnumarkaðsmálum þess hluta atvinnulífsins sem heyrir undir skapandi greinar. Kolbrún Halldórsdóttir, forseti BÍL, stýrði umræðum en markmiðið með þeim var meðal annars að finna sameiginlega fleti svo auðveldara verði að tengja listamenn og hönnuði við aðila vinnumarkaðarins.

Elínrós Líndal, forstöðumaður Hugverkasviðs SI og kosningastjóri xHugvit, stýrði umræðum um mikilvægi hugvits í sköpun aukinna verðmæta. Umræðan var lífleg og komið var inn á fjölmörg þeirra  málefna sem xHugvit leggur áherslu á að skili sér inn á málefnaskrá stjórnmálaflokkanna í aðdraganda kosninganna í október. Meðal þeirra sem tóku þátt í umræðunum voru Eliza Reid, frumkvöðull og forsetafrú Íslands, Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands, Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, stofnandi Norðurskautsins, Margrét Júlíana Sigurðardóttir, stofnandi Rosamosa, Vignir Örn Guðmundsson, stofnandi Radiant Games, Ragnheiður Þorleifsdóttir, viðskiptastjóri Hugsmiðjunni, Salome Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups
og Sveinn Sölvason, fjármálastjóri Össurar.