SI undrast fyrirhugaðar verðhækkanir Landsvirkjunar
Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, um fyrirhugaðar verðhækkanir sem koma fram í heildsölugjaldskrá Landsvirkjunar sem ViðskiptaMogginn sagði frá á forsíðu sinni í gær. Í fréttinni í Morgunblaðinu í dag kemur fram að hækkanirnar hafi komið framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins í opna skjöldu og hann segist undrandi á því að fyrirtækið sjái ástæðu á þessum tíma til þess að hækka orkuverð. „Staða miðlunarlóna Landsvirkjunar er með ágætum hvað vatnsforða snertir samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins og því ljóst að enginn skortur á framboði orku er í sjónmáli. Þá finnst manni skjóta skökku við að ákveðið sé að hækka verð á orku til þeirra fyrirtækja sem svo selja hana áfram til neytenda, bæði fyrirtækja og almennings,“ segir Sigurður í Morgunblaðinu.
Verðhækkanir sem lenda að lokum á almenningi í landinu
Jafnframt segir Sigurður að horfa verði til þess að hækkanir af þessu tagi lendi að lokum á almenningi í landinu. „Auðvitað kemur þetta illa niður á mörgum fyrirtækjum, ekki síst félagsmönnum okkar, en að lokum veltur þetta út í vöruverðið og sá reikningur lendir á neytendum í landinu. Þessar hækkanir koma svo einnig fram í hækkun vísitölu neysluverðs.“
Morgunblaðið, 15. desember 2017. mbl.is, 14. desember 2017.