SI vara við auknum álögum á fyrirtæki
Samtök iðnaðarins hafa skilað inn umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2026–2030 (264. mál). Í umsögninni fagna samtökin áherslum stjórnvalda á eflingu samkeppnishæfni og stöðugleika í opinberum fjármálum, en beina jafnframt sjónum að þeim þáttum sem brýnt er að bæta, einkum í tengslum við innviði, skattastefnu og nýsköpunarumhverfi.
1. Samkeppnishæfni og efnahagslegt umhverfi
- SI lýsa ánægju með áherslur á bætt starfsumhverfi og samkeppnishæfni atvinnulífsins.
- Leggja áherslu á að einfalda regluverk, draga úr „gullhúðun“ og hraða uppbyggingu innviða, orkuöflunar og íbúðabygginga.
- Varhugavert er að auka álögur á fyrirtæki við núverandi aðstæður, líkt og boðaðar hækkanir á skatttekjum í 34% af landsframleiðslu, sem geti grafið undan hvata til nýsköpunar og fjárfestinga.
- Styðja við mótun heildstæðrar iðnaðarstefnu sem stuðlar að aukinni verðmætasköpun og framleiðni.
2. Viðnámsþróttur samfélagsins
- SI fagna áherslu stjórnvalda á að efla viðnámsþrótt samfélagsins gagnvart ytri áföllum, hvort sem þau stafa af náttúruhamförum eða af mannavöldum.
3. Innviðir og húsnæðisuppbygging
- SI kalla eftir aukinni fjárfestingu í vegakerfinu en viðhaldsskuld nemur nú 290 milljörðum króna. Áformum ríkisstjórnarinnar um stofnun sérstaks innviðafélags sem sjái um fjármögnun stærri samgönguverkefna er fagnað.
- SI kalla eftir því að endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu manna á verkstað hækki aftur í a.m.k. 60% til að auka hvata til byggingar íbúða. Þá er kallað eftir fyrirsjáanleika hvað varðar veitingu hlutdeildarlána.
4. Skattastefna og opinber fjármál
- SI lýsa stuðningi við meginstefnu fjármálaáætlunarinnar sem felst í sjálfbærni, festu, varfærni og gagnsæi í opinberum fjármálum.
- SI telja varhugavert að hækka skatttekjur ríkisins hlutfallslega á tímabili áætlunarinnar og benda á að skattahækkanir hafi tilhneigingu til að draga úr virkni í atvinnulífinu og rýra samkeppnishæfni Íslands.
- Bent er á að skattspor iðnaðarins sé stærst allra útflutningsgreina og að frekari álögur geti dregið úr svigrúmi fyrirtækja til að fjárfesta og skapa störf. SI hvetja til skýrari stefnumörkunar um hóflega skattheimtu í þágu vaxtar og stöðugleika.
5. Nýsköpun og rannsóknir
- SI leggja mikla áherslu á að viðhalda og efla hvetjandi umgjörð fyrir nýsköpun, þar sem hugverkaiðnaður er vaxandi útflutningsstoð.
- SI hvetja til þess að skattahvatar vegna rannsókna og þróunar verði festir í sessi og tryggð sé langtímafjármögnun nýsköpunarumhverfisins með einfaldara og skilvirkara sjóðaumhverfi.
- Þá kalla SI einnig eftir því að auðvelda aðgengi alþjóðlegra sérfræðinga að íslenskum vinnumarkaði.
Hér er hægt að nálgast umsögn SI í heild sinni.