Fréttasafn



19. ágú. 2025 Almennar fréttir Starfsumhverfi

SI vilja aukna aðkomu atvinnulífsins að almannavörnum

Samtök iðnaðarins hafa skilað umsögn um drög að frumvarpi til laga um almannavarnir, mál nr. S-114/2025. Samtökin fagna meginmarkmiðum frumvarpsins um skýrari ábyrgð viðbragðsaðila, styrkingu fyrirbyggjandi aðgerða og eflingu á viðbragðsgetu samfélagsins. Samtökin leggja jafnframt áherslu á að aðkoma atvinnulífs verði skýrari og að kvaðir á einkaaðila verði raunhæfar, sanngjarnar og gangi ekki lengra en þörf krefur.

Áhersla á sérfræðiþekkingu iðnfyrirtækja

Samtök iðnaðarins minna á að iðnfyrirtæki gegna mikilvægu hlutverki vegna óvæntra áfalla og benda þar sérstaklega á sérfræðiþekkingu, mannafla og búnað. Nærtækasta dæmið er aðkoma iðnfyrirtækja í uppbyggingu varnargarða vegna jarðhræringa á Reykjanesskaganum. Samtökin benda á að efnistök frumvarpsins gera ekki nægilega ráð fyrir þessari aðkomu og telja þar á meðal að einkaaðilar sem reka ómissandi innviði, svo sem fjarskiptafyrirtæki og gagnaver, eigi að eiga fast sæti í samráðshópum ríkislögreglustjóra.

Ómissandi innviðir og kostnaðarskipting

Í umsögninni er lögð áhersla á skýrleika um hvaða innviðir teljist ómissandi. Þá er bent á að óljóst sé hver beri kostnað af úttektum á ómissandi innviðum sem og þjálfun starfsmanna þegar slíkir innviðir eru í eigu einkaaðila. Samtökin krefjast aukins gagnsæis um ábyrgð ríkis og sveitarfélaga á kostnaði vegna þessa.

Neyðarbirgðir og fæðuöryggi

Samtök iðnaðarins leggja sérstaka áherslu á mikilvægi samstarfs við atvinnulífið við mótun stefnu um neyðarbirgðir. Þau benda á að tryggja þurfi samkeppnishæf skilyrði fyrir innlenda framleiðslu, ekki síst í lyfja- og matvælaframleiðslu, til að efla viðnámsþrótt samfélagsins.

Samtökin benda á í umsögn sinni að með raunhæfum og skýrum reglum geti iðnfyrirtæki betur lagt sitt af mörkum til að tryggja öryggi og efla viðnámsþrótt samfélagsins.

Hér er hægt að nálgast umsögn SI í heild sinni.