SI vilja raunhæfari viðmið í ytra mati framhaldsskóla
Samtök iðnaðarins hafa skilað umsögn um drög að viðmiðum fyrir ytra mat í framhaldsskólum. Þar lýsa samtökin stuðningi við markmið matsins um umbætur og faglega þróun en gagnrýna skort á raunhæfum viðmiðum, sérstaklega í tengslum við iðn- og tæknimenntun, nýsköpun og samstarf við atvinnulíf.
Þarf að endurspegla raunverulegar aðstæður
SI telja að ytra mat þurfi að meta hvort skólar hafi aðgang að viðeigandi búnaði, húsnæði og fjármagni til að bjóða upp á gæðanám. Þá verði mat á verklegri hæfni í starfsnámi að fara fram af fagfólki á vinnustað, í samræmi við hefðir í iðnnámi.
Skortir tengingu við atvinnulíf og nýsköpun
Gagnrýnt er að skortur sé á skýrum viðmiðum um tengsl skóla við atvinnulíf og hvernig þau nýtast til að þróa námsbrautir og hæfniviðmið. Einnig vantar viðmið um þátttöku í nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefnum og stuðning við STEAM-greinar.
Ytra mat verði umbótatæki
Samtökin vilja að ytra mat nýtist sem stefnumótunartæki en ekki aðeins sem formlegt eftirlit. Þá þurfi einföldun á framkvæmd matsins og aukna áherslu á raunverulega umbótamöguleika skóla.
Mikilvægt að samræma innra mat
Lögð er áhersla á að styrkja innra mat skóla og tryggja samræmi milli námsbrauta. Það sé forsenda gagnsæis og sambærilegs námsframboðs fyrir nemendur.
Menntun fyrir framtíðina
SI hvetur því ráðuneytið eindregið til að styðja við innleiðingu innri gæðaviðmiða á framhaldsskólastigi sem hluta af samræmdu og umbótadrifnu innra mati, í samspili við ytra mat. Þetta er forsenda þess að byggja upp menntakerfi þar sem námsframboð er gagnsætt, sambærilegt og þjónar hagsmunum nemenda, atvinnulífs og samfélagsins alls.
Hér er hægt að nálgast umsögn SI í heild sinni.