SI vilja sveigjanlega stefnu um notkun snjalltækja í grunnskólum
Samtök iðnaðarins (SI) hafa skilað inn umsögn um áform mennta- og barnamálaráðuneytisins um breytingu á lögum um grunnskóla nr. 91/2008 þar sem lagt er til að settar verði samræmdar reglur um notkun snjalltækja í grunnskólum. Í umsögninni fagna SI áherslu stjórnvalda á bætt námsumhverfi og vellíðan nemenda, en telja að lagasetningin þurfi að byggjast á skýrri framtíðarsýn um hlutverk stafrænnar tækni í menntun og samfélagi. Samtökin leggja áherslu á að nýta tækni til nýsköpunar og hæfniþróunar, frekar en að beita almennum bönnum sem geta dregið úr möguleikum skóla til að nýta tæknina í kennslu.
Lærdómur frá Eistlandi
Í umsögninni er bent á að Eistland hafi náð framúrskarandi árangri í Pisa-könnun 2022 með samþættingu snjalltækja og gervigreindar í skólastarfi. Þar ráða kennarar hvort tækin séu notuð í kennslu og áhersla er lögð á fræðslu um ábyrgða tækninotkun í stað boða og banna.
Rannsókn styður sveigjanlega nálgun
SI vísa einnig til nýrrar rannsóknar frá Háskólanum í Birmingham sem birt var í The Lancet Regional Health Europe í febrúar 2025. Rannsóknin sýnir að bann við snjallsímanotkun í skólum hafi engin sjálfstæð jákvæð áhrif á námsárangur eða líðan nemenda.
Hvetja til leiðbeinandi ramma
SI telja eðlilegra að móta leiðbeinandi ramma um notkun snjalltækja í stað lagasetningar um almennt bann. Kennarar þurfi svigrúm og stuðning til að nýta tæknina í skapandi verkefnum, forritun og myndvinnslu sem efli þá hæfni sem atvinnulífið krefst.
Í umsögninni segir að með réttri nálgun geti tæknin stuðlað að aukinni hæfni, sköpun og betri námsárangri.
Hér er hægt að nálgast umsögn SI.