SI vilja tryggja stöðu löggiltra iðngreina
Samtök iðnaðarins hafa skilað umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi (meðalhófsprófun) mál nr. 48. Í umsögninni lýsa samtökin yfir stuðningi við skýra afmörkun meðalhófsprófunar, sem kveður á um að matið taki einungis til nýrra eða breyttra reglna, en ekki eldri krafna um löggildingu. Slík framvirk nálgun tryggir stöðu löggiltra iðngreina og dregur úr réttaróvissu. Samtökin telja mikilvægt að breytingar á löggjöf séu byggðar á gagnsæi og rökstuddu mati.
Mikilvægi samráðs við atvinnugreinar
Í umsögninni er lögð áhersla á að mælt verði skýrt fyrir um skyldubundið samráð stjórnvalda við viðkomandi atvinnugreinar þegar breytingar á löggiltum iðngreinum eru til skoðunar. Slíkt samráð stuðli að gagnsæi, betri ákvörðunum og tryggir að hagsmunir atvinnulífsins séu teknir með í reikninginn.
Löggilding þjónar almannahagsmunum
Samtökin minna á að löggilding iðngreina hefur það meginhlutverk að gæta almannahagsmuna. Löggilding stuðlar að öryggi, heilsuvernd og neytendavernd, auk þess sem hún dregur úr ólöglegu vinnuafli og misnotkun á vinnumarkaði.
Í því ljósi vara samtökin við því að meðalhófsprófun verði notuð sem tæki til að veikja gildandi reglur án vandaðs mats og samráðs við viðkomandi aðila.
Hér er hægt að nálgast umsögnina.