Fréttasafn



12. sep. 2017 Almennar fréttir

SI vinni með stjórnvöldum að umbótum í samfélaginu

„Það er gríðarlega mikilvægt að okkur takist að fá fleiri í starfsnám og þar gegna fyrirtækin okkar lykilhlutverki. Aukin tæknivæðing mun kalla eftir fólki með góðan tæknilegan bakgrunn og gott verkvit.“ Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, meðal annars í nýju tölublaði af Íslenskum iðnaði sem er að berast til félagsmanna SI þessa dagana. 

Í blaðinu kemur einnig fram í máli Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, að aðaláhersla verði lögð á fjóra meginþætti í starfi samtakanna: menntamál, nýsköpun og tækniþróun, styrkingu innviða og starfsumhverfi íslenskra iðnfyrirtækja í þáttum eins og regluverki, sköttum og hagstjórn.

„Umbætur á öllum þessum sviðum gera það eftirsóknarverðara að búa á Íslandi og leiða til aukinnar framleiðni og hagsældar fyrir alla landsmenn.“ Hann segir jafnframt að Samtök iðnaðarins séu hreyfiafl í íslensku samfélagi sem eiga að taka frumkvæði í mikilvægum málum sem varða iðnaðinn, leysa verkefni með skapandi hætti og nýjum hugmyndum, koma inn í umræðuna á uppbyggilegan hátt og vinna með stjórnvöldum að umbótum í samfélaginu. 

Ingólfur Bender, hagfræðingur SI, segir frá því í blaðinu hversu umfangsmikill iðnaður er í íslensku efnahagslífi en þar kemur meðal annars fram að iðnaður skapi ríflega 29% landsframleiðslunnar, 36% gjaldeyristekna og 21% launþega í landinu starfi í iðnaði eða ríflega einn af hverjum fimm.

Hér er hægt að lesa blaðið í heild sinni:

Íslenskur iðnaður, 1. tbl. 23. árg.