Fréttasafn17. des. 2018 Almennar fréttir Menntun

Síðasti dagur fyrir tilnefningar menntaverðlauna

Í dag er síðasti dagur til að senda inn tilnefningar fyrir Menntaverðlaun atvinnulífsins sem verða afhent á Menntadegi atvinnuífsins sem haldinn verður í Hörpu fimmtudaginn 14. febrúar. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Tilnefningar er hægt að senda í tölvupósti til Samtaka atvinnulífsins á sa@sa.is

Þetta er í sjötta sinn sem dagurinn er haldinn en um er að ræða samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins. Iceland Travel var valið menntafyrirtæki ársins 2018 og Landsnet menntasproti ársins 2018.

Verðlaun eru veitt í tveimur flokkum; menntafyrirtæki ársins og menntasproti ársins.  

Helstu viðmið fyrir menntafyrirtæki ársins eru:

  • að skipulögð fræðsla sé innan fyrirtækisins,
  • að stuðlað sé að markvissri menntun og fræðslu,
  • að sem flest starfsfólk taki virkan þátt og
  • að hvatning sé til frekari þekkingaröflunar.

Helstu viðmið vegna menntasprota ársins eru:

  • að lögð sé stund á nýsköpun í menntun og fræðslu, innan fyrirtækis og/eða í samstarfi fyrirtækja,
  • samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu, innan sem utan fyrirtækja.