Fréttasafn13. maí 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda Starfsumhverfi

SÍK fagnar áformum ráðherra um eflingu kvikmyndaiðnaðar

Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, SÍK, fagnar því að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hyggst leggja fram frumvarp á vorþingi um breytingu á lögum um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og þannig hækka endurgreiðsluhlutfall stærri verkefna í 35%. Undanfarin ár hefur SÍK í málflutningi sínum lagt áherslu á jákvæð hagræn áhrif endurgreiðslukerfisins og aukna verðmætasköpun sem kerfið hefur leitt af sér. SÍK fagnar því að stjórnvöld sýni vilja í verki og styðji við greinina með hækkun endurgreiðsluhlutfalls og styrki þannig alþjóðlega samkeppnishæfni þess.

SÍK hvetur jafnframt stjórnvöld til þess að líta til heildrænna áhrifa endurgreiðslukerfisins og hækka hlutfall endurgreiðslna þeirra verkefna sem uppfylla ekki skilyrði frumvarpsins. Mikilvægt er að sporna gegn því að framleiðsla minni verkefna, sem þýðingarmikil er í listrænu og menningarlegu samhengi, verði eftirbátur í sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu. Í því samhengi verður ekki hjá því litið að nefna mikilvægi þess að huga að varðveislu íslenskrar tungu, listrænu ígildi, stuðningi við framleiðslu, uppbyggingu fagþekkingar og atvinnusköpun í greininni.