Fréttasafn12. okt. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Menntun Samtök fyrirtækja í málm– og skipaiðnaði

Símenntun fyrir málm- og véltækniiðnað

Góð mæting var á rafrænan fræðslufund Málms sem fór fram í morgun þar sem fjallað var um símenntun fyrir málm- og véltækniiðnað. Farið var yfir hver réttindi fyrirtækja til niðurgreiðslna eru og hvernig umsóknarferli er háttað. Þá var kynning á námskeiðahaldi á vegum Iðunnar ásamt kynningu á sjálfbærniáherslum Iðunnar.

Fjóla Hauksdóttir, verkefnastjóri Iðunnar, fjallaði um réttindi aðildarfyrirtækja til niðurgreiðslna vegna endurmenntunar starfsfólks. Greindi hún frá því að á undanförnum árum hafi breytingar átt sér stað á vinnustöðum þar sem yngri kynslóðir gera auknar kröfur til vinnuveitenda með tilliti til fræðslu og endurmenntunar. Þau fyrirtæki sem greiða endurmenntunargjöld til Iðunnar eiga rétt á að sækja fræðslustyrk vegna starfstengdra námskeiða. Niðurgreiðslur eru ekki bundnar við sértæk svið innan Iðunnar, þ.e. fyrirtæki sem starfa í málm- og véltækniiðnaði eiga jafnframt rétt á því að sækja um niðurgreiðslur vegna annarra námskeiða innan Iðunnar. Þá kynnti hún Áttina og umsóknarferlið en fyrirtæki geta sótt um styrk í samvinnu við önnur fyrirtæki, fræðsluaðila og/eða stéttarfélög sem eiga aðild að Iðunni, í gegnum vefinn attin.is. Fjóla kvað mikilvægt að fyrirtæki útbúi fræðsluáætlun fyrir hvert ár og tryggi þannig nýtingu inneignar sem annars fyrnist við hver áramót. Þau fyrirtæki sem ekki búa yfir mannauðsstjóra geti sótt um að fá „Fræðslustjóra að láni“ þar sem ráðgjafi kemur inn í fyrirtæki og kostnaður vegna þessa niðurgreiddur af sjóðum. Fræðslustjóri ræðir við starfsfólkið og framkvæmir ákveðna þarfagreiningu. Út frá því samtali er útbúin fræðsluáætlun til þriggja anna. Að lokum hvatti Fjóla fundargesti til að nýta sér réttindin til endurmenntunar enda væri það lykill að hæfni og starfsánægju mannauðs hvers fyrirtækis.

Sigursveinn Óskar Grétarsson, leiðtogi í málm- og véltæknigreinum hjá Iðunni, fjallaði um námskeiðahald á málm- og véltæknisviði Iðunnar. Kvað hann námskeið á sviðinu hafa verið vel sótt undanfarin ár en erfiðara hafi gengið að fá sambærilega aðsókn á sértækari námskeið. Hvatti hann fyrirtæki til þess að hafa samband og leggja fram tillögur að sértækari námskeiðum. Oft á tíðum væru fyrirtæki búin að tryggja sérfræðing fyrir kennslu á sértæku námskeiði. Í slíkum tilvikum væri aðkoma Iðunnar utanumhald vegna námskeiðsins. Þá greindi hann frá Youtube-rás málm- og véltæknisviðs Iðunnar þar sem boðið er upp á fræðslumyndskeið, fyrirtækjaheimsóknir og viðtöl. Þá er sviðið jafnframt með hlaðvarp sem gegnir mikilvægu fræðslu- og miðlunarhlutverki. Þá hvatti Sigursveinn fyrirtæki til skráningar á birtingarskrá Menntamálastofnunar fyrir Nemastofu vegna starfsnema. Að lokum hvatti hann fyrirtæki til þess að skrá sig á póstlista Iðunnar þar sem félagsmenn geta kynnt sér hvaða námskeið eru í boði hverju sinni.

Ásgeir Valur Einarsson, leiðtogi í sjálfbærnimálum hjá Iðunni, fjallaði um sjálfbærni í iðnaði. Kynnti hann stuttlega hvaða áskoranir iðnaðurinn stendur frammi fyrir. Iðan leggur áherslu á að aðstoða fyrirtæki í sjálfbærnileiðangri og hvatti hann félagsmenn til þess að hafa samband fyrir frekari upplýsingar.