Fréttasafn



5. nóv. 2015 Iðnaður og hugverk

Síminn og Samtök iðnaðarins efla saman íslenskan iðnað

Síminn genginn í Samtök iðnaðarins

 „Mikilvægt er að efla tæknimenntun svo íslensk fyrirtæki standi styrk og geti skapað sér samkeppnisforskot gagnvart síaukinni samkeppni erlendis frá á fjarskipta- og afþreyingarmarkaði,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans. „Þróun markaðarins er afar spennandi og þekking nauðsynleg til að standast keppinautunum snúning.“ 

Síminn hefur skráð sig til leiks hjá Samtökum iðnaðarins sem eru stærstu fyrirtækjasamtök landsins. Orri gegndi áður stöðu framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins og þekkir því mikilvægi þeirra vel þegar kemur að því að efla íslenskan iðnað og samkeppnishæfni hans. 

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, fagnar því að fá eins rótgróið fyrirtæki og Símann inn í samtökin. „Sóknarfæri er fólgið í því að enn fleiri öflug fyrirtæki vinni með okkur að því að efla iðn- og tæknimenntun, bæta nýsköpunarumhverfi og auka framleiðni,“ segir hann. „Síminn verður innan hóps tækni- og hugverkafyrirtækja sem afla um 22% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Lausnir tækni- og hugverkaiðnaðarins eru til hagsbóta í öllum atvinnugreinum og auka verðmætasköpun og gæði,“ segir Almar og heldur áfram: ,,Starfsfólk Samtaka iðnaðarins fagnar sérstaklega að vinna aftur með Orra og einnig hans fólki hjá Símanum.“ Orri segir það áskorun innan fjarskipta- og upplýsingatæknifyrirtækja að auka þá þekkingu sem innan þeirra er miðað við þær miklu breytingar sem netið leiði af sér fyrir fyrirtækin. „Við hjá Símanum viljum því taka þátt í því góða starfi og vera bakhjarl þeirra þegar kemur að því að efla iðnina hér á landi.“ 

Elínrós Líndal, viðskiptastjóri SUT – samtaka upplýsingatæknifyrirtækja innan Samtaka iðnaðarins. ,,Við viljum sjá öll upplýsingatæknifyrirtæki landsins innan starfsgreinahópsins og fögnum því innkomu Símans. Æ fleiri fyrirtæki gera upplýsingatækni að sérsviði sínu enda stækkar markaðurinn fyrir hana sífellt. Það eru spennandi tímar framundan og með öflugri stjórn SUT munum við án efa sannfæra fleiri námsmenn um að upplýsingatækni er einn áhugaverðasti iðnaður landsins. Í UT eru launin há, vöxturinn umfram meðal hagvöxt í landinu og þetta er útflutningsgrein sem byggir á hugvitinu einu.“ 

Þess má geta að SUT stendur fyrir mánaðarlegum fundum í vetur undir heitinu Lunch code. Um er að ræða hádegisviðburði sem hugsaðir eru fyrir fyrirtæki innan SUT og aðra áhugasama um upplýsingatækni. Fundirnir eru haldnir í Gamla bíó.