Fréttasafn



27. mar. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Sjaldan jafn brýnt og nú að styðja við það sem íslenskt er

Ég hef verið að hvetja fólk í kringum mig og meðal annars með grein í Fréttablaðinu í dag, að hvetja fólk til að sýna í verki og styðja íslensk fyrirtæki hvort sem þau eru í verslun, þjónustu eða í framleiðslu. Nú gefur sannarlega á bátinn hjá okkur öllum hér á landi. Hluti af því að styðja við hvort annað er að þá erum við að vernda störf hvers annars. Ég vil meina að nú hefur sjaldan verið jafn brýnt eins og núna að styðja við það sem íslenskt er. Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, meðal annars í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. 

„Ég er að hvetja fólk til þess að styðja við atvinnu á Íslandi og við styðjum við atvinnu í okkar nærumhverfi. Ég held að flestir viti það nú að ég bý í Hveragerði þar sem eru margir þjónustuaðilar, bæði í verslun og veitingum og öllum sviðum. Ég hef haft það til dæmis fyrir reglu í áratugi að ég reyni að kaupa allar mínar jólagjafir í Hveragerði og ég kaupi allt í Hveragerði sem ég get. Þar með er ég að styðja við að það sé verslun í mínu nærumhverfi. Nú svo ég get ég farið á Selfoss og sótt mér þangað þjónustu eða stækkað hringinn og farið til Reykjavíkur. Þegar ég ferðast um landið þá fylli ég ekki bílinn af matvöru sem ég kaupi hér í mínum heimabæ heldur reyni ég að versla við þá aðila þegar ég keyri hringinn í kringum landið. Ég reyni að beina viðskiptum mínum til fólks sem er að halda uppi þjónustu 365 daga á ári fyrir okkur öll.

Guðrún segir að þetta eigi að sjálfsögðu við öll fyrirtæki og þar með talið sé brýnt að beina viðskiptum við íslenskar auglýsingastofur, við íslenska fjölmiðla og þar með sé verið að tryggja vinnu. „Við viljum að klipparinn okkar geti klippt okkur þegar þar að kemur og við viljum geta farið á snyrtistofuna eða farið í líkamsræktina okkar. Það er ekkert sjálfgefið að þessi þjónusta sé til staðar. Nú bregður okkur öllum við af því okkur er ekki leyft að nota hana. Við þurfum líka auðvitað að sjá til þess að þessi fyrirtæki lifi með einum eða öðrum hætti. Þó við getum ekki farið núna út að borða þá eru flestir staðir að bjóða upp á óhefðbundnar leiðir, þeir eru að afhenda mat beint í bílinn eða senda heim. Ég bara hvet fólk til þess að beina viðskiptum sínum til þessara fyrirtækja, til veitingastaðanna, til blómabúðanna og þar fram eftir götum.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Guðrúnu í heild sinni.