Fréttasafn20. mar. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Sjö sprotafyrirtæki taka þátt í Hringiðu 2023

Samtök iðnaðarins eru meðal bakhjarla Hringiðu sem hafa kynnt hvaða sprotafyrirtæki hafa verið valin til þátttöku í hraðlinum Hringiða 2023. Um er að ræða sjö fyrirtæki sem setja áherslu á hringrásarhagkerfið og vilja tryggja að auðlindum sé haldið í hagkerfinu. Umsjón með hraðlinum er í höndum KLAK sem hefur til fjölda ára veitt aðstoð við þróun viðskiptahugmynda og leitt saman hóp hagaðila með verðmætasköpun að leiðarljósi. Bakhjarlar Hringiðu eru auk SI Reykjavíkurborg, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir, Terra og Ölgerðin. Samstarfsaðilar Hringiðu eru Rannís, Breið þróunarfélag, Evris, Sjávarklasinn, Grænvangur og Orkuklasinn. 

Eftirtöld sprotafyrirtæki  taka þátt í Hringiðu 2023:

  • Mar Eco sem vinnur að umhverfisvænum lausnum í framleiðslu og notkun veiðarfæra. Notast er við endurunnið plastrusl úr sjó sem styður við bláa hagkerfið og umhverfisvænar veiðar. Þau sem standa á bak við Mar Eco eru Atli Már Jósafatsson, Gunnar Már Atlason og Andrea Thormar.
  • Melta  býður upp á hringrásarþjónustu og framleiðslu á lífrænum áburði úr lífúrgangi í dreifbýlum og sveitarfélögum. Þau sem standa á bak við Melta eru Björk Brynjarsdóttir og Júlía Brenner.
  • Orb þróar tækni til að mæla kolefnisbindingu skóga á ódýran og aðgengilegan hátt til að stuðla að ábyrgri kolefnisjöfnun og framleiðslu vottaðra kolefniseininga. Þau sem standa á bak við Orb eru Íris Ólafsdóttir og Jón Arnar Tómasson.
  • Resea Energy er rannsóknar- og þróunarfyrirtæki sem stefnir á framleiðslu á lífeldsneyti úr hrati frá ræktuðu þangi. Þau sem standa á bak við Resea Energy eru Páll Gunnarsson og Ingi Björn Sigurðsson.
  • Alor vinnur að þróun og framleiðslu á umhverfisvænum álrafhlöðum og orkugeymslum af mismunandi stærðum þ.e. frá litlum rafhlöðum og rafgeymum yfir í stórar orkugeymslur í gámastærðum. Þau sem standa á bak við Alor eru Linda Fanney Valgeirsdóttir og Rúnar Unnþórsson.
  • Bambahús eru gróðurhús sem stuðlar að eflingu hringrásarhagkerfisins þar sem endurnýttar eru vökvaumbúðir sem annars væru fluttar úr landi og urðaðar. Þau sem standa á bak við Bambahús eru Reyni Hjálmarsson, Jón Hafþór Marteinsson og Sigrún Arna Gylfadóttir.
  • Munasafn RVK Tool Library er hingrásarsafn sem veitir samfélögum sanngjarnan og fjárhagslegan aðgang að tólum og öðrum munum. Þau sem standa á bak við Munasafn RVK Tool Library eru Anna C de Matos og Kristofer Henry. 

Á vef Klak er hægt að nálgast frekari upplýsingar.