Fréttasafn2. jan. 2019 Almennar fréttir Nýsköpun

Skapa þarf stöðugt og hvetjandi rekstrarumhverfi

Gríðarleg tækifæri eru til staðar í tengslum við nýjan iðnað og nýsköpun í rótgrónum iðngreinum en mikilvægt er að fyrirtækjum sé skapað stöðugt og hvetjandi rekstrarumhverfi. Nýr og öflugur útflutningsiðnaður, sem byggir á hugviti og hátækni, gæti þýtt að við þyrftum ekki að treysta á síldarvertíð og tilfallandi búhnykki til framtíðar. Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, í grein sinni í Áramót, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar sem kom út í lok ársins. Treystum ekki á tilfallandi búhnykki er yfirskrift greinarinnar.

Í grein sinni segir Sigríður jafnframt að eftir umbrotatíma í stjórnmálum á árunum 2008-2017 sé nú við völd ríkisstjórn sem hafi breiða skírskotun og að við þær aðstæður ætti langtímastefnumótun að eiga sér stað. Tímarnir séu breyttir, tækniframfarir séu að eiga sér stað á meiri hraða í dag en áður hafi þekkst og á sama tíma séu kröfur meiri, og spili loftslagsbreytingar og áhersla á umhverfisvernd þar lykilhlutverk. 

Þá nefnir hún að öldrun þjóða sé áskorun sem verði ekki litið framhjá í þessu samhengi. Ef Ísland eigi að verða þátttakandi í þeim breytingum sem framundan eru og njóta góðs af þeim þurfi að virkja tækifærin sem séu fólgin í vexti iðnaðar sem byggi á hugviti. Til þess þurfi íslensk stjórnvöld að marka skýra stefnu fram á við í lykilmálaflokkum og fylgja henni eftir í gegnum löggjöf og verklag í stjórnsýslu og hjá opinberum stofnunum. Skattkerfið og ráðstöfun opinbers fjármagns séu öflugustu tólin í verkfærakassa ríkisins. Hún segir að ríkið og löggjafinn hafi með stefnu sinni í ýmsum málaflokkum ýmist hvetjandi eða letjandi áhrif á fyrirtæki og atvinnuuppbyggingu og stýri þannig óbeint hegðun á frjálsum markaði. Ríkið geti líka þvælst fyrir í atvinnuuppbyggingu og það ætti ávallt að hafa í huga við stefnumótun hins opinbera. 

Hér er hægt að lesa grein Sigríðar í heild sinni.