Fréttasafn



25. jún. 2021 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Skapa þarf svigrúm til að stækka eða byggja nýjar virkjanir

Lárus M. K. Ólafsson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, segir í frétt Morgunblaðsins að aðildarfyrirtæki hjá samtökunum hafi áhyggjur af stöðu raforkumarkaðarins. Hann bendir á að ástandið á íslenskum markaði sé ekki nógu gott þar sem orkuskortur hækki raforkuverð. 

Lárus segir í fréttinni að skapa þurfi ákveðið svigrúm fyrir orkufyrirtækin til þess að geta ráðist í framkvæmdir, hvort sem það er stækkun eða bygging nýrra virkjana. „Við höfum verulegar áhyggjur af þróun raforkuverðs og auðvitað er ekki á bætandi ef það er einhver óvissa með framleiðslugetu sem þar af leiðandi hækkar raforkuverð. Þetta er viðvarandi og við höfum lýst yfir áhyggjum af þessu alveg óháð því hvort einhver túrbína bilaði í Reykjanesvirkjun eða hvort það sé skert lónstaða,“ 

Í frétt Morgunblaðsins segir Lárus að SI hafi einnig heyrt af áhyggjum aðildarfyrirtækja af framboði á rafmagni og hvort það muni hafa í för með sér einhverjar skerðingar á afhendingu. „Ég held að fyrirtæki og stórnotendur hafi áhyggjur af því.“ Lárus segist heyra mikið frá fyrirtækjum um hækkanir á flutningsgjaldskrá Landsnets sem hækkaði í janúar um 5,5% hjá stórnotendum og 9,9% hjá dreifisveitunum. 

Morgunblaðið, 25. júní 2021.

Morgunbladid-25-06-2021