Fréttasafn



13. sep. 2021 Almennar fréttir

Skattaafsláttur fyrir grænar lausnir

Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki, sagði á kosningafundi SI að hann teldi að hægt væri að ná meiri árangri í loftslagsmálum með annarri aðferðarfræði en að Loftslagssjóður fjármagni umbreytingu í atvinnulífi sem dragi úr losun. „Hér er aðferðarfræðin sú að þú tekur tekjur af sölu losunarheimilda og þú ráðstafar þeim í sjóð og svo þurfa menn að sækja um í sjóðnum og það eru takmarkaðir fjármunir og á endanum fá ekki allir sem að vilja.“ Hann sagði að lögum hafi verið breytt til þess að fara allt aðra leið að þessu. „Og sögðum, farið þið og fjárfestið. Ef að þið trúið á grænar lausnir, sem muni gagnast í ykkar rekstri, þá gefum við ykkur skattaafslátt. Við bæði heimilum meiri flýtifyrningar og erum með viðbótarfyrningar í atvinnurekstrinum.“

Hann sagði að þarna væri ríkið að segja að ef að þeir sem eru með fjármunina hafi trú á lausnunum og vilji taka veðmálið til þess að uppfylla skilyrði um grænni lausnir, „þá erum við auðvitað með okkar skilyrði í lögum um það. Þá á ríkið að sjálfsögðu að hvetja til þess og þar eru engin ytri mörk, þú þarft ekki að sækja um í einhvern sjóð. Ef þú uppfyllir skilyrðin þá færðu afsláttinn.“

Bjarni sagði að þannig getum við virkjað hugmyndir úti í samfélaginu, hjá fyrirtækjunum. „Þar sem að hagsmunirnir liggja, af breytingunni. Án þess að þurfa að millifæra í gegnum einhvern opinberan sjóð. Þetta held ég að hafi verið gríðarlega jákvæði breyting og við ættum að fylgjast vel með ávinningnum af þessu.“

Si_kosningafundur_2021-12-CopyBjarni Benediktsson á kosningafundi SI.

Hér er hægt að nálgast kosningafund SI:

https://vimeo.com/600871564