Fréttasafn



22. des. 2025 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Skattahækkanir á nýbyggingar langt umfram almenna kostnaðarþróun

„Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir í samhengi við húsnæðisuppbyggingu og hafa bein áhrif á hvort verkefni fara af stað, hversu hratt þau ganga og hvaða verð er hægt að bjóða upp á,“ segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, meðal annars í nýjasta tölublaði Sóknarfæra um niðurstöður greiningar SI sem sýnir að álögur sveitarfélaga á nýbyggingar hafi vaxið hratt á undanförnum árum og séu orðnar verulegur þáttur í heildarkostnaði við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Greiningin sýnir að átta stærstu sveitarfélög landsins innheimtu samtals 57 milljarða króna í byggingarréttargjöldum, gatnagerðargjöldum og innviðagjöldum á árunum 2022 til 2024 eða að jafnaði um 19 milljarða króna á ári.  „Þessi kostnaður lendir ekki á öllum íbúðastofninum heldur beint á nýjum íbúðum. Það hefur afgerandi áhrif á hagkvæmni uppbyggingar og þar með á framboð húsnæðis.“

Í Sóknarfæri kemur fram gjöldin séu í flestum tilvikum innheimt við upphaf framkvæmda, löngu áður en uppbyggingaraðilar fái greitt fyrir íbúðirnar. Þegar þessi gjaldtaka sé fjármögnuð með lánsfé hækki raunverulegur kostnaður enn frekar vegna fjármagnskostnaðar. „Þetta eru því ekki bara há gjöld heldur líka dýr gjöld. Þau hækka fastan kostnað snemma í ferlinu og þrengja að rekstri verkefna,“ segir Jóhanna Klara. Greining SI sýnir að gatnagerðargjöld átta stærstu sveitarfélaganna hafa að jafnaði hækkað um 67% frá árinu 2020 til 2025, eða um 1,8 milljónir króna á hverja 100 fermetra íbúð í fjölbýli með stæði í bílakjallara. Á sama tíma hækkaði byggingarvísitalan um 37%, sem þýðir að hækkun gatnagerðargjalda hefur verið langt umfram almenna kostnaðarþróun. „Þessi þróun bætist ofan á aðra kostnaðarliði sem hafa einnig hækkað verulega, verðbólga hefur verið mikil, launahækkanir umtalsverðar og vextir háir,“ segir hún og bendir á að þessi samsetning hafi haft veruleg áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja í íbúðaruppbyggingu. 

Sóknarfæri, desember 2025.

Soknarfaeri-desember-2025