Fréttasafn



5. jún. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

Skattahvatar auka fjárfestingu einkageirans í nýsköpun

„Skattfrádráttur rannsókna- og þróunarverkefna hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif á hagkerfið og styrkt fjórðu stoð útflutnings, hugverkaiðnað, mjög á síðustu árum. Kerfið er eitt helsta og áhrifamesta tæki ríkisins til þess að stuðla að aukinni framleiðni í hagkerfinu með því að auka fjárfestingu einkageirans í nýsköpun,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í Viðskiptablaðinu þar sem fjallað er um skattahvatakerfi vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar en því var komið á hér á landi eftir fjármálahrunið til að ýta undir nýsköpun og fjölga stoðum í atvinnulífinu og tóku lögin gildi árið 2010. 

Hefur sýnt sig að slíkir skattahvatar virka

Sigríður segir í Viðskiptablaðinu mikilvægt að halda því til haga að um sé að ræða skattahvata en ekki hefðbundna styrki. „Það hefur sýnt sig að slíkir hvatar virka og hafa gert sitt til að búa til þá öflugu stoð sem hugverkaiðnaðurinn er orðinn. Hvatar þekkjast víða og hér á landi hafa þeir nýst til að ná markmiðum í atvinnugreinum sem hafa notið ívilnana. Skattahvatar hafa áhrif á hegðun og ákvarðanatöku, og eru eðlisólíkir styrkjum. Skattafrádráttur vegna rannsókna og þróunar er hluti af skattauppgjöri þessara fyrirtækja og flest öll lönd í Evrópu eru með sambærileg kerfi.“

Skoða framkvæmd og skilyrði fyrir skattafrádrætti

Þá segir Sigríður í Viðskiptablaðinu að Samtök iðnaðarins séu sammála því að skoða framkvæmdina og skilyrðin fyrir skattafrádrætti rannsókna og þróunar enda hafi kerfið stækkað mikið á síðustu árum, samhliða stóraukinni fjárfestingu í nýsköpun. Sjá þurfi til þess að skattahvatarnir nýtist fyrirtækjum í hugverkaiðnaði sem eru skalanleg á alþjóðamörkuðum og skapa verðmætar útflutningstekjur fyrir þjóðarbúið. „Við erum mjög til í samtal um endurskoðun á lögunum sem snýr að því að skattfrádrátturinn renni til þeirra fyrirtækja sem eru í raunverulegri nýsköpun, byggja á hugverkum og þróa vörur og þjónustu ætlaða til útflutnings. Að veita skattahvata til fyrirtækja eins og Controlant, Marel, Kerecis, Alvotech, Össurar og Nox Medical, svo dæmi séu tekin, sem eru að skapa mikil verðmæti fyrir þjóðarbúið og geta skalað upp sína vöru eða þjónustu á alþjóðlegum mörkuðum skilar sér margfalt til baka í þjóðarbúið. Þetta kerfi er eitt það skilvirkasta og arðbærasta fyrirkomulag sem hægt er að vera með til að auka fjárfestingu í nýsköpun og framleiðni og þar með verðmætasköpun í hagkerfinu ef staðið er rétt að hlutunum. Það erum við algjörlega sannfærð um.“

Viðskiptablaðið, 5. júní 2024.

vb.is, 8. júní 2024.