Fréttasafn14. okt. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

Skattahvatar fyrir nýsköpun verði festir í sessi til frambúðar

Rætt er við Sigríðir Mogensen, sviðsstjóra iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í Fréttablaðinu sem segir  mikilvægt að binda varanlega í lög hækkun á endurgreiðsluhlutfalli og þaki á skattafrádrætti vegna rannsókna og þróunar en nú sé um tímabundið ákvæði að ræða. 

Sigríður segir það útfærsluatriði hvort frádrátturinn ætti fremur að miðast við verkefni eða fyrirtæki. „Markmiðið með skattafrádrættinum er að auka fjárfestingu í nýsköpun sem skilar sér margfalt til baka í formi nýrra starfa, meiri útflutnings og verðmætasköpunar til framtíðar. Hvort skatturinn miðast við fyrirtæki eða verkefni er útfærsluatriði og ætti ekki að þrengja rammann of mikið enda skilar fjárfestingin sér ríkulega til baka.“ 

Næsta ríkisstjórn haldi áfram að efla samkeppnishæfni Íslands á sviði nýsköpunar

Þá kemur fram í fréttinni að Sigríður segi að tímabundin hækkun vorið 2020 hafi strax haft jákvæð áhrif, þar sem fyrirtæki í hugverkaiðnaði blésu til sóknar, fjölguðu starfsfólki og juku fjárfestingu í nýsköpun, en það sé ávísun á aukna verðmætasköpun. „Vaxtartækifræin eru mikil í hugverkaiðnaði, sem er orðinn fjórða stoðin í útflutningstekjum þjóðarbúsins. Við hvetjum næstu ríkisstjórn til þess að halda áfram á þeirri braut af fullum krafti að efla samkeppnishæfni Íslands á sviði nýsköpunar og festa skattahvata í sessi til frambúðar og í raun lýsa því yfir að þeir séu komnir til að vera.“ 

Leiðir til þess að fyrirtæki haldi áfram að fjárfesta hér á landi

Jafnframt segir Sigríður í Fréttablaðinu að það muni koma til með að auka fyrirsjáanleika og leiða til þess að fyrirtæki haldi áfram að fjárfesta hér á landi og gera langtíma áætlanir. „Það er það sem skiptir öllu máli, þá sérstaklega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.“ 

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 14. október 2021.

Frettabladid-14-10-2021