Fréttasafn



29. okt. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

Skattahvatar vegna rannsókna og þróunar eru mikilvægasta tólið

Í umfjöllun Innherja kemur fram að fjármálaráðherra hafi að stórum hluta dregið til baka upphafleg áform um verulega lækkun á endurgreiðsluhlutfalli og hámarki á frádráttárbærum kostnaði í tengslum við rannsóknir og þróun nýsköpunarfyrirtækja sem hefði, að mati Samtaka iðnaðarins, valdið því að fyrirtæki myndu færa þróunarstarfsemi sína úr landi. Þar kemur fram að Samtök iðnaðarins segi breytingarnar frá frumvarpsdrögum „jákvæðar“ en vilji sjá meira gert sem snýr að skattahvötum. Rætt er við Sigríði Mogensen, sviðsstjóra iðnaðar- og hugverkasviðs SI, sem segir að frumvarpið sem lagt var fyrst fram til samráðs hefði þýtt að tækifærum og vexti hugverkaiðnaðar yrði teflt í tvísýnu. „Fjölmörg fyrirtæki á þessu sviði hefðu séð hag sínum betur borgið í öðrum löndum. Tækni- og hugverkafyrirtæki eru sérstök að þessu leyti, því meirihluti þeirra getur flutt sína starfsemi úr landi á örfáum mánuðum. Það hafa nú verið gerðar jákvæðar breytingar á frumvarpsdrögunum en betur má ef duga skal.“

Hún bætir við að Samtök iðnaðarins bindi vonir við að Alþingi muni gera „enn frekari breytingar“ sem lúti að skattahvötum vegna rannsókna og þróunar. „Vegna fyrirhugaðra Alþingiskosninga teljum við eðlilegt að það komi í hlut nýrrar ríkisstjórnar að móta pólitíska sýn og stefnu um atvinnuuppbyggingu framtíðar.“

Þá kemur fram hjá Innherja að Sigríður undirstriki að það liggi gríðarlega mikil vaxtartækifæri í hugverkaiðnaði – hlutdeild hans í útflutningstekjum sé óðum að nálgast tuttugu prósent – bendir því til staðfestingar á nýjar útflutningstölur sem birtust í vikunni. Þar komi fram að útflutningur í tækni- og hugverkaiðnaði á fyrstu átta mánuðum ársins hafi numið ríflega 193 milljörðum og aukist um meira en 20 prósent frá sama tímabili í fyrra. 

Einnig kemur fram að Samtök iðnaðarins telji að ef árið verði í heild með sama vexti muni greinin skapa um 320 milljarða í útflutningstekjur á þessu ári – borið saman við tæplega 130 milljarða litið aftur til ársins 2017. „Vöxtur síðustu ára hefur verið stöðugur en greinin í heild á enn mikið inni og mesti vöxturinn er framundan, ef rétt verður á málum haldið. Skattahvatar vegna rannsókna og þróunar eru mikilvægasta tólið í verkfærakistu ríkisins til þess að styðja við og stuðla að áframhaldandi verðmætasköpun og vexti útflutningstekna til framtíðar á sviði nýsköpunar, hugverka og tækni. Framleiðni í greininni er há og hún skapar verðmæt og eftirsóknarverð störf. Framleiðni og lífskjör þjóða haldast í hendur.“

Hér er hægt að nálgast umfjöllunina í heild sinni.

Innherji, 26. október 2024.