Skattahvatar vegna rannsókna og þróunar hafa skipt sköpum
„Við höfum verið mjög jákvæð gagnvart endurskoðun á umgjörð kerfisins eða kerfinu sjálfu,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt mbl.is spurður um endurskoðun á endurgreiðslukerfi vegna rannsókna og þróunar. Sigurður bendir á að endurgreiðslukerfið hafi skipt sköpum í því að byggja upp hugverkaiðnaðinn. „Grundvöllurinn á þessu öllu saman er að miklu leyti til vegna þessara skattahvata.“
Í Morgunblaðinu og á mbl.is í dag er frétt um að engar upplýsingar fáist uppgefnar um hverjir fá meirihluta skattahvata vegna rannsókna og þróunar ár hvert.
Í frétt mbl.is kemur fram að umsvif endurgreiðslukerfisins hafi aukist á síðustu misserum og bendir Sigurður á ýmislegt í því samhengi. „Á móti má ekki gleyma því að þrátt fyrir að þetta hafi verið 12 milljarðar árið 2022 er heildarskattspor hugverkaiðnaðar 77 milljarðar,“ segir Sigurður og vísar til greiningar sem Reykjavík Economics vann fyrir Samtök iðnaðarins frá því fyrr á árinu.
Sigurður segir samtökin tengja saman hugverkaiðnað og nýsköpun og þar af leiðandi til skattahvatanna. „Það er meiri framleiðni í hugverkaiðnaðinum en gengur og gerist.“
mbl.is, 29. maí 2024.