Skattastefna stjórnvalda gagnvart atvinnulífinu mikilvæg
„Við verðum að setja samkeppnishæfni í forgang. Það hafa stjórnvöld í öðrum ríkjum gert við sambærilegar aðstæður og það þurfa stjórnvöld hér að gera líka, bæði með öflugri hagsmunagæslu sem þau hafa sinnt vel en ekki síður með því að ryðja heimatilbúnum hindrunum úr vegi. Þar er skattastefna stjórnvalda gagnvart atvinnulífinu sérstaklega mikilvæg, þó svo að auðvitað sé langur listi af atriðum sem þarf að taka til skoðunar,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í frétt mbl.is um fyrirhugaða tollahækkanir Bandaríkjanna á vörur frá Íslandi. Sigurður segir mikilvægt að íslensk stjórnvöld vandi til verka í samtölum sínum við Bandaríkin. Ásamt því bendir hann á að gögn og upplýsingar þurfi að vera á rökum reist og áreiðanlegar. „Þetta kemur til framkvæmda á morgun. Vörur sem eru sendar eða fara í skip fyrir hádegi sleppa en aðrar ekki. Íslensk stjórnvöld hafa óskað eftir samtali við bandarísk stjórnvöld og það skiptir mjög miklu máli að hagsmunir Íslands séu vel greindir áður en slíkt samtal hefst. Við þurfum ekki bara að meta núverandi stöðu heldur einnig þau tækifæri sem geta falist í henni. Það gæti til dæmis verið hægt að fara í fjárfestingar sem kalla á kaup á búnaði frá Bandaríkjunum, sem myndi draga úr viðskiptahalla og skapa gagnkvæm tækifæri. Stjórnvöld þurfa því að hugsa út fyrir kassann áður en þau hefja slíkar viðræður.“
Í frétt mbl.is kemur fram að Sigurður gagnrýni sérstaklega þá staðreynd að tölur um utanríkisviðskipti á Íslandi séu oft ekki í samræmi við bandarískar tölur. „Það er mjög óþægilegt að bandarísk stjórnvöld taki ákvarðanir út frá sínum tölum, sem eru aðrar en þær sem við höfum hér. Þetta hefur komið ítrekað upp og er alvarlegt mál sem stjórnvöld þurfa að taka föstum tökum. Réttar upplýsingar eru forsenda þess að hægt sé að gæta hagsmuna Íslands sem best.“
Á vef mbl.is er hægt að lesa fréttina í heild sinni.
mbl.is, 6. ágúst 2025.