Skattkerfið styðji við útflutningsgreinarnar
Ingvar Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Nox Medical og formaður Hugverkaráðs SI, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að mikilvægt sé að stjórnvöld beiti áfram ívilnunum í skattkerfinu til að hvetja fyrirtæki til að fjárfesta í rannsóknum og þróun. „Hugmyndin að slíku kerfi hefur margsannað sig og við eigum að bæta í á því sviði. Það er mikilvægt að skattkerfið sé hannað þannig að það styðji við útflutningsgreinarnar með sanngjörnu ívilnanakerfi. Það þarf að þétta í götin, festa kerfið í sessi til frambúðar og búa til umhverfi sem íslensk hugverkafyrirtæki geti starfað við,“
Ingvar flutti erindi, Verðmætasköpun með hugvitið að vopni, á Skattadegi Viðskiptaráðs og Deloitte sem var haldinn í Silfurbergi í Hörpu í gær. Í fréttinni kemur fram að Ingvar hafi fjallað um hvernig stjórnvöld geti byggt upp stefnu sem ýti undir verðmætasköpun á sviði hugverkaiðnaðar. Hann hafi meðal annars farið yfir sögu hugverkaiðnaðarins á Íslandi og samkeppnisumhverfi Nox Medical, og hvatt stjórnvöld til að marka skýra stefnu til að efla hugverkaiðnaðinn.
ViðskiptaMogginn / mbl.is, 15. janúar 2025.