Fréttasafn13. mar. 2017 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Skattlagning einstakra virkjana farsælla en arðgreiðslur

Í ViðskiptaMogganum var viðtal við Bjarna Má Gylfason, hagfræðing Samtaka iðnaðarins, sem segir að skattlagning einstakra virkjana hér á landi gæti verið spennandi leið og mögulega farsælli fyrir þjóðina en að Landsvirkjun sé uppálagt að greiða arð árlega til ríkisins. 

Í fréttinni segir ennfremur: Þessi hugmynd er ein af þeim sem koma fram í skýrslu danska ráðgjafarfyrirtækisins Copenhagen Economics, sem kynnt var á fjölsóttum fundi Landsvirkjunar á Hilton hóteli í fyrradag. „Mér finnst athyglisvert að þeir ræða um það að koma arðseminni í gegnum skattkerfið, í stað þess að þetta verði háð arðgreiðslum Landsvirkjunar sem fyrirtækis, og þeim sem halda þar um stjórnvölinn hverju sinni. Með þessari leið yrði hver virkjun skattlögð sem slík eftir ákveðnu kerfi, og þannig nyti þjóðin og ríkissjóður ávinnings af aðlindinni. Það er heilbrigðara fyrirkomulag. Ég sem Íslendingur vil bara að þetta sé vel rekið og starfhæft kerfi,“ segir Bjarni í samtali við ViðskiptaMoggann. Hann segir að um leið og orðræðan sé orðin þannig að Landsvirkjun greiði 10-20 milljarða króna í arð á hverju ári, sé fyrirtækið sem slíkt orðið of stór jafna í öllu dæminu. Bjarni sagði að margt í skýrslunni vekti athygli, og meðal annars það sem sagt væri um aðskilnað Landsvirkjunar og Landsnets. „Höfundar skýrslunnar tala mjög ákveðið um að það sé mikilvægt að slíta tengslin á milli Landsvirkjunar og Landsnets. Þetta samband er mjög óeðlilegt, því Landsvirkjun er á samkeppnismarkaði en svo er Landsnet að flytja orkuna í náttúrulegri einokun. Þarna á milli mega ekki vera nein tengsl.“

Morgunblaðið, 9. mars 2017.