Fréttasafn



21. mar. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Skattspor iðnaðar sýnir að huga þarf betur að samkeppnishæfni

Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir að stjórnmálamenn þurfi að huga betur að samkeppnishæfni í framtíðinni þegar hugaverkaiðnaði vex fiskur um hrygg og fyrirtæki eigi auðveldara um vik að færa sig á milli landa. Þröngt skattspor hugverkaiðnaðar er orðið meira en hjá framleiðsluiðnaði og byggingariðnaði. Þetta kemur fram í umfjöllun Innherja um nýja greiningu SI um skattspor iðnaðar á Íslandi þar sem rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI. 

Í umfjöllun Innherja kemur fram að SI hafi fengið greiningarfyrirtækið Reykjavík Economics til þess að reikna skattspor iðnaðarins fyrir árið 2022 með sambærilegum hætti og hefur verið gert fyrir aðrar atvinnugreinar og að skattspor iðnaðarins sé 462 milljarðar króna. Sigurður segir að það sé athyglisvert hve skattspor iðnaðar sé stórt. „Það sýnir hvað greinin er stór og öflug.“ Þá kemur fram að þröngt skattspor iðnaðarins, þegar ekki sé tekið tillit til útskatts virðisaukaskatts, sé 213 milljarðar króna og sé það stærst allra útflutningsgreina. Til samanburðar nemi þröngt skattspor ferðaþjónustunnar 92 milljörðum króna og sjávarútvegs 85 milljörðum króna árið 2022.

Hugverkaiðnaður stærst af undirgreinum iðnaðar

Einnig kemur fram í Innherja að iðnaður byggi á þremur stoðum, samkvæmt greiningunni. Þröngt skattspor byggingariðnaðar og mannvirkjagerðar sé 61 milljarður króna og 75 milljarðar króna í tilviki framleiðsluiðnaðar. „Það er merkilegt að sjá að hugverkaiðnaður er stærstur af þessum undirgreinum,“ segir Sigurður og nefnir að það muni ekki miklu á þröngu skattspori hugverkaiðnaðar og sjávarútvegs og ferðaþjónustu. Þá segir að þröngt skattspor hugverkaiðnaðar hafi aukist úr 60 milljörðum króna árið 2017 í 77 milljarða króna árið 2022 á föstu verðlagi eða um 28 prósent, samkvæmt greiningunni. Sigurður segir að það sé áminning um hve miklu máli það hafi skipt ríkið og stjórnvöld að fjárfesta í uppbyggingu og vexti hugverkaiðnaðarins.

Hér er hægt að lesa umfjöllun Innherja í heild sinni.

Innherji, 20. mars 2024.