Skattspor iðnaðarins stærst allra útflutningsgreina
Árið 2023 nam skattspor íslensks iðnaðar 464 milljörðum króna samkvæmt niðurstöðum Reykjavík Economics og er stærst meðal útflutningsgreina. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI. Um er að ræða umtalsverða fjárhæð enda er íslenskur iðnaður ein af undirstöðum íslensks efnahagslífs. Til samanburðar námu útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála 354 milljörðum króna árið 2023 og til menntamála 250 milljörðum króna. Þetta sýnir að iðnaðurinn stendur undir stórum hluta af starfsemi hins opinbera, þar sem skattspor iðnaðarins mælir framlag greinarinnar til samfélagsins í formi skattgreiðslna. Greiningin byggir á skýrslu Reykjavík Economics og byggist á sömu aðferðafræði og fyrri greiningar af sama toga.
Skattspor iðnaðarins það stærsta meðal útflutningsgreina
Skattspor iðnaðarins er stærst allra útflutningsgreina. Til samanburðar nam skattspor ferðaþjónustunnar 180 milljörðum króna árið 2023, sem er ríflega helmingi minna en skattspor iðnaðarins. Í skýrslu Reykjavík Economics er fjallað um heildarskattspor iðnaðar, einnig nefnt vítt skattspor. Það eru þær tölur sem vísað er til hér að framan. Til viðbótar er reiknað svokallað þröngt skattspor iðnaðarins, sem er víða skilgreint skattspor að frádregnum útskatti virðisaukaskatts. Þröngt skattspor iðnaðarins nam 220 milljörðum króna árið 2023. Til samanburðar nam þröngt skattspor ferðaþjónustunnar 107 milljörðum króna og sjávarútvegsins 89 milljörðum króna sama ár.
Þessar tölur undirstrika mikilvægi iðnaðarins fyrir skatttekjur ríkisins og endurspegla jafnframt umfang hans í íslensku efnahagslífi. Verðmætasköpun greinarinnar nam 900 milljörðum króna í fyrra, sem er um fjórðungur landsframleiðslunnar. Í greininni starfa 52 þúsund manns, eða einn af hverjum fjórum á innlendum vinnumarkaði, og stór hluti skattsporsins eru vinnuaflstengdir skattar. Iðnaðurinn er jafnframt stærsta útflutningsgrein þjóðarbúsins og aflaði 750 milljarða króna í útflutningstekjur í fyrra, sem jafngildir 39% af heildarútflutningstekjum. Að auki hefur greinin veruleg jákvæð áhrif á aðrar atvinnugreinar. Ljóst er því að iðnaðurinn stendur bæði undir stórum hluta skatttekna ríkisins og hagsældar þjóðarinnar.
Hin hliðin á peningnum: Ísland er háskattaland
Þrátt fyrir að skattspor iðnaðarins sé mikið endurspeglar það einnig háa skattbyrði á íslensk fyrirtæki. Ríflega 32% af verðmætasköpun íslenska hagkerfisins rennur til hins opinbera í formi skatta sem er hátt í alþjóðlegum samanburði. Álögur hins opinbera á fyrirtæki og heimili á Íslandi eru miklar miðað við flest önnur ríki.
Skattar og gjöld á íslensk fyrirtæki eru margþætt og margar álögur teljast mjög íþyngjandi fyrir atvinnulífið. Háir skattar draga úr samkeppnishæfni, markaðshlutdeild, fjárfestingum, verðmætasköpun og fjölda starfa.
Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.