Fréttasafn



28. mar. 2018 Almennar fréttir

Skiptir máli hvernig opinberum innkaupum er hagað

 

Hið opinbera eyðir 45 krónum af hverjum 100 krónum sem eytt er í hagkerfinu. Með réttu vali má því hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu atvinnugreina með tilheyrandi störfum og verðmætasköpun hérlendis. Það skiptir því talsverðu máli hvernig opinberum innkaupum er hagað því þannig má hafa jákvæð áhrif á þróun á markaði. Hið opinbera getur einnig verið drifkraftur nýsköpunar og lagt mikið af mörkum til sjálfbærrar þróunar. Þetta kemur fram í grein Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í Markaðnum sem fylgir Fréttablaðinu í dag. 

84% af húsgagnainnkaupum ríkisstjórnarinnar innflutt húsgögn

Í greininni kemur jafnframt fram að það ætti að vera sjálfsagt mál að íslensk húsgögn sjáist í öllum opinberum byggingum, ekki síst þeim sem almenningur á erindi um í einhverjum mæli og að ráðuneytin séu dæmi um það. Á fyrstu þremur mánuðum nýrrar ríkisstjórnar greiddu ráðuneyti um 12 milljónir fyrir húsgögn ef marka má upplýsingar á vefnum opnirreikningar.is. Þar af voru 10 milljónir greiddar fyrir innflutt húsgögn eða 84% af innkaupunum á umræddu tímabili. Á það hefur verið bent að skandinavísk hönnun er áberandi í opinberum byggingum og þannig fara tækifæri til að rækta orðspor Íslands forgörðum. Það er miður og tefur þessa mikilvægu uppbyggingu.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Sigurður að nýta þurfi hvert tækifæri til þess að auka veg íslenskrar framleiðslu og hönnunar og rækta þannig orðspor landsins með tilheyrandi verðmætasköpun.

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.