Fréttasafn



5. feb. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Skiptir miklu máli fyrir útflutning og þar með lífskjör á Íslandi

„Það sem gæti þá auðvitað gerst er að Evrópusambandið mun að öllum líkindum og hefur í rauninni komið fram í máli framkvæmdastjórnar ESB að við slíkum tollum yrði brugðist. Það auðvitað myndi þýða að Evrópusambandið sjálft myndi hækka tolla á innfluttar vörur til sín og þar auðvitað eigum við gríðarlega stórra hagsmuna að gæta,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í frétt RÚV um hótanir Bandaríkjaforseta um að hækka innflutningstolla á vörur frá Evrópusambandinu. 

Mikilvægt að vera í samfloki með ríkjum í svipaðri stöðu líkt og Noregur

Í frétt RÚV kemur fram að verði af hótunum Bandaríkjaforseta um að hækka innflutningstolla á vörur frá Evrópusambandinu gæti það haft mikil áhrif hér á landi. Iðnaðarvörur hafi verið árið 2023 fluttar héðan til ESB og Bandaríkjanna fyrir 422 milljarða króna, langmest til Evrópu, fyrir 382 milljarða eða 91% og 40 milljarða til Bandaríkjanna. Af útflutningi til ESB fyrir 382 milljarða króna var mest flutt út af áli eða fyrir rúmlega 300 milljarða króna. Sigríður segir í frétt RÚV því mikilvægt að skoða stöðuna og möguleikana vandlega. Árið 2018 þegar svipuð staða hafi komið upp fengu EFTA-ríkin innan ESB tímabundna undanþágu frá verndartollum ESB á ál og stál. Sú undanþága sé ekki lengur í gildi og Sigríður segir mikilvægt að vera í samfloti með ríkjum í svipaðri stöðu og nefnir þar Noreg sérstaklega, sú vinna sé þegar hafin. „Þessi vinna hófst þegar við kjör Donalds Trump í ljósi þess að hann hafði auðvitað boðað þessar aðgerðir í sinni kosningabaráttu og þessi vinna hófst hjá okkur í Samtökum iðanaðarins strax núna í haust.“

Ríkur vilji til að huga og gæta að hagsmunum Íslands og Noregs

Í frétt RÚV segir að utanríkisráðherra hafi sagt í fréttum að nú skiptu góð tengsl Íslands við ESB miklu máli. Sigríður telur Ísland njóta velvildar í þessu máli. „Já, ég myndi segja það alveg klárlega. Það er ríkur vilji tel ég miðað við þá fundi sem ég hef átt á vettvangi EFTA, það er ríkur vilji til að huga og gæta að hagsmunum ríkja eins og Íslands og Noregs og þessi samtöl eru held ég bara á mjög góðum stað. En við verðum að vera með augun á þessum bolta næstu vikur og mánuði og skiptir gríðarlega miklu máli fyrir íslenskan útflutning og þar með lífskjör á Íslandi.“

RÚV, 4. febrúar 2025.