Fréttasafn



20. nóv. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Skiptir öllu máli að sinna virkri hagsmunagæslu innan EES

Þetta er auðvitað, eins og við höfum sagt, áfall og auðvitað hriktir svona aðeins í stoðum kannski EES-samstarfsins akkúrat núna. Þetta segir Sigríði Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í kvöldfréttum RÚV í viðtali Björns Malmquist í aðdraganda fundar utanríkisráðherra EES-ríkjanna með einum af framkvæmdastjórum Evrópusambandsins sem haldinn verður í Brussel í dag. 

Sigríður segir að  hins vegar séu gríðarlega miklir hagsmunir undir fyrir Ísland að styrkja EES-samstarfið til lengri tíma. „Og það hljóta að vera hagsmunir Íslands og íslenskra fyrirtækja að við, ásamt nú Norðmönnum, stöndum mjög þétt að baki þessu samstarfi og sinnum mjög virkri hagsmunagæslu innan EES og gagnvart EES-samningnum. Það hljóta að vera okkar heildarhagsmunir.“

Sigríður segir jafnframt í fréttinni að það verði mjög skýr skilaboð á fundinum. „Að minnsta kosti frá Íslandi, fyrir hönd íslensks atvinnulífs og iðnaðar, hvað þessi mál varðar, að það sé algjörlega óboðlegt að íslensk fyrirtæki sitji undir regluverki sem að getur á köflum verið íþyngjandi án þess að njóta ávinningsins af aðgengi að mörkuðunum. En það breytir þó því ekki að EES-samningurinn er enn mikilvægasti viðskiptasamningur Íslands og það skiptir öllu máli, eins og ég sagði, að sinna virkri hagsmunagæslu innan EES gagnvart samningnum og að Ísland standi styrkum fótum hvað þetta samstarf varðar ennþá.“

Á vef RÚV er hægt að horfa á fréttina í heild sinni.

RÚV, 19. nóvember 2025.