Skipulagsferli sveitarfélaga hægir á uppbyggingu
Á mbl.is er sagt frá því að skipulagsferli sveitarfélaga hægi verulega á uppbyggingu og komi í veg fyrir að hönnuðir finni hagkvæmari lausnir sem lækki byggingarkostnað og að framkvæmdafyrirtæki telji að geðþótti byggingafulltrúa hafi áhrif á yfirferð hönnunargagna. Í þessu er vísað til erindis Eyrúnar Arnarsdóttur, viðskiptastjóra á mannvirkjasviði Samtaka iðnaðarins, á fundi samtakanna um íbúðamarkaðinn sem haldinn var á Grand Hótel Reykjavík í gær.
Þorsteinn Friðrik Halldórsson, blaðamaður, skrifar að í erindinu hafi Eyrún kynnt niðurstöður skoðanakönnunar sem lögð var fyrir félagsmenn á mannvirkjasviði. Níu af hverjum tíu svarendum nefni lítið lóðaframboð í úthverfum, þéttingu byggðar eða há opinber gjöld sem hindrun í vegi uppbyggingar.
Á fundinum hafi Eyrún farið yfir þá flöskuhálsa sem eru til staðar í skipulagsferlinu og nefnt dæmi um félagsmann sem var að byggja íbúðarhúsnæði á þéttingarsvæði þar sem fjarlægja þurfti ýmsar lagnir. Hann hefði fengið byggingarleyfi í maí en þurfti framkvæmdaleyfi til þess að fjarlægja lagnirnar og var það ekki veitt fyrr en í september.
Níu af hverjum tíu svarendum í könnuninni töldu að strangir skipulagsskilmálar kæmu í veg fyrir nýsköpun í hönnun sem gæti lækkað byggingarkostnað. „Við sjáum skipulagsskilmála þar sem sérstaklega er kveðið á um efnisval, liti, áferð og kröfur um fjölda bílastæða neðanjarðar svo dæmi séu tekin,“ sagði Eyrún. „Staðan er því miður sú að þessir skipulagsskilmálar eru mjög strangir og ganga raunar svo langt að það er nánast búið að hanna mannvirkið.“
Á mbl.is er hægt að lesa fréttina í heild sinni.