Fréttasafn21. sep. 2016 Mannvirki

Skipulagskvaðir í Hafnarfirði hækka byggingarkostnað íbúða

Ágúst Pétursson, formaður Meistarafélags iðnaðarmanna í Hafnarfirði, MIH, telur að skipulagskvaðir fyrir fjölbýlishúsalóðir í Skarðshlíð á Völlunum í Hafnarfirði séu þannig að íbúðirnar verði óhjákvæmilega dýrari en þær hefðu getað orðið. Í viðtali í Morgunblaðinu í dag segir Ágúst að gerðar séu kröfur um ákveðnar lofthæðir, liti, áferð á ytra byrði húsa, klæðningar og fleira sem hefur ekki sést áður. „Á sama tíma og verið er að breyta byggingarreglugerð í átt til meira frjálsræðis stígur Hafnarfjarðarbær fram með forskrift í deiliskipulagi sem hefur ekki sést áður.“

Ágúst segir einnig í viðtalinu að deiliskipulagsákvæðin fyrir Skarðshlíð ásamt auglýstu lágmarkslóðaverði væru alls ekki til þess fallin að draga úr byggingarkostnaði eins og stefnt hefði verið að í síðustu kjarasamningum. „Þetta er ekki í anda þess sem við höfum talað um hér í Hafnarfirði að menn geti fengið þarna byggingarland fyrir einingar sem þeir treysta sér í. Nú þurfti að bjóða í heila reiti sem voru fyrir 30 íbúðir og upp í 41 íbúð. Varðandi fjórbýlin þurfti að bjóða minnst í lóðir undir fjögur fjórbýli eða sextán íbúðir.“ Hann segir slíkt ekki vera á færi nema stórra byggingarverktaka eða fjárfesta. 

Fréttin á mbl.is með yfirskriftinni Óánægja með skipulagskvaðir .