Fréttasafn



20. feb. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Skólamatur framleiðir 15 þúsund máltíðir í 60 eldhúsum

Fulltrúar SI, Sigurður Hannesson, framkvæmdarstjóri SI, og Gunnar Sigurðarson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, heimsóttu Skólamat sem er aðildarfyrirtæki SI. Skólamatur sem er með starfsemi í Keflavík er fjölskyldufyrirtæki stofnað sem hluti af alhliða veitingaþjónustu fyrir tæpum aldarfjórðung og sérhæfir sig í framleiðslu á ferskum og hollum mat fyrir leik- og grunnskóla.

Á síðustu árum hefur fyrirtækið vaxið mikið en í dag framleiðir það til að mynda um 15 þúsund hádegismáltíðir á dag í 60 eldhúsum um allt höfuðborgarsvæðið og Reykjanesi en starfsmenn fyrirtækisins eru rúmlega 170.

Skólamatur leggur upp með að veita viðskiptavinum sínum hollan og góðan mat með gæði hráefnis að leiðarljósi en allar máltíðir eru eldaðar frá grunni. Unnið hefur verið markvisst að því að sporna við matarsóun, flokkun og endurvinnslu í framleiðslunni. Lífrænn úrgangur er vigtaður í öllum eldhúsum og haldin er nákvæm skráning og eftirlit til að lágmarka kolefnisspor.

Á myndinni eru, talið frá vinstri, Axel Jónsson, stofnandi og eigandi, Sigurður Hannesson, framkvæmdarstjóri SI, Jón Axelsson, framkvæmdarstjóri, Fanney S. Axelsdóttir, mannauðs- og markaðsstjóri, og Gunnar Sigurðarson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI.