Skólar eiga að geta séð um að útskrifa alla iðnnema
Í frétt RÚV kemur fram að Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, kannist ekki við að iðnnemar komist ekki á samning hjá fyrirtækjum í þeim greinum sem falla undir samtökin. Með kerfisbreytingum árið 2020 ættu skólarnir að geta séð um að útskrifa nemendur eftir svokallaðri skólaleið sem á að tryggja að fái nemandi ekki vinnustaðasamning geti vinnustaðarnámið farið fram í skólanum sjálfum sem veiti nemanum þá tilskilda þjálfun. En í kvöldfréttum RÚV daginn áður kom fram að brögð séu að því að iðnnemar komist ekki á vinnustaðasamninga hjá fyrirtækjum í sinni grein og geti því ekki útskrifast og að margir flosni jafnvel upp úr námi.
Hindrunum hefur verið rutt úr vegi og skólarnir uppfylli sínar skyldur
Sigurður segir í frétt RÚV: „Það hefur auðvitað verið viðfangsefni iðnnema um áratugaskeið að komast á samning, en með þeim kerfisbreytingum sem þáverandi menntamálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir leiddi og við studdum dyggilega hjá Samtökum iðnaðarins, þá átti þessum hindrunum að vera rutt úr vegi og skólarnir þannig að geta hjálpað sínum nemendum að útskrifast." En sé það hins vegar raunin segir hann að verði að taka á þeim vanda.„Við verðum bara að skoða það ef að skólarnir eru ekki að uppfylla sínar skyldur, þá er það vandamál sem verður bara tekið á hratt og örugglega trúi ég."
RÚV, 21. júní 2025.