Fréttasafn24. mar. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Skora á stjórnvöld að leyfa innflutning á iðnaðarhampi

Á síðustu misserum hefur umræða verið meðal fjölmargra félaga Samtaka iðnaðarins um tækifæri sem felast í löglegri CBD framleiðslu fyrir íslenskan iðnað. Bent hefur verið á að aðstæður á Íslandi séu kjörnar fyrir innanhúss-ræktun iðnaðarhamps og framleiðslu CBD úr honum, meðal annars vegna góðs aðgengis að rafmagni og mikillar reynslu af innanhúss-ræktun.

Hampfélagið sem eru samtök stofnuð til að fræða og miðla þeim ávinningi sem hlýst af nýtingu hamps fyrir betri og sjálfbærari framtíð hefur skorað á stjórnvöld að leyfa innflutning á hampfræjum án tafar. Í fréttatilkynningu frá Hampfélaginu segir að iðnaðarhampur sé planta sem hefur nánast óteljandi nýtingamöguleika, auk þess sem plantan kolefnisbindi 20x hraðar en tré og gefur Íslendingum færi á að verða sjálfbærari um hráefni í margskonar iðnaði. 

Þá segir í tilkynningunni að það sé á tímum sem þessum sem þörfin fyrir sjálfbærni sé knýjandi fyrir hvert þjóðríki. Að banna innflutning á hampfræjum sem hafi verið innan styrkjakerfis Evrópusambandsins í tvo áratugi, sé því óverjandi. Að auki gæti ræktun og framleiðsla á hampi dregist saman á heimsvísu, því erfitt sé að starfrækja fyrirtæki á fullum afköstum þegar að COVID-19 vírusinn herji á heimsbyggðina og innflutningur því orðið erfiðari. Jafnframt kemur fram að Hampfélagið hvetji því stjórnvöld til að leyfa án tafar innflutning á hampfræjum svo bændur geti farið að undirbúa ræktun fyrir næsta sumar. Það taki nokkrar vikur að flytja inn fræ sem þurfi að komast ofan í jörð í maí. Ef málið tefjist mikið fram í apríl sé sumarið í ár farið forgörðum sem annars væri hægt að nýta í tilraunaræktun um land allt.

Hér er hægt að nálgast fréttatilkynninguna í heild sinni.