Skortur á fjármagni og nýsköpun hamlar þróun námsgagna
Samtök iðnaðarins (SI) og Samtök menntatæknifyrirtækja (IEI) hafa skilað umsögn um frumvarp til laga um námsgögn, 255. mál. Í umsögninni fagna samtökin því að stefnt sé að gjaldfrjálsum námsgögnum fyrir börn og ungmenni, en vekja jafnframt athygli á alvarlegum áskorunum sem lúta að fjármögnun, nýsköpun og fjölbreytni í námsefnisgerð.
Skortur á fjármagni og samþjöppun verkefna
Samtökin benda á að fjármögnun til þróunar og gerðar námsgagna sé verulega ábótavant. Árið 2024 nam samanlagður stuðningur við Námsgagnasjóð og Þróunarsjóð námsgagna einungis 176 milljónum króna. Þessi fjárhæð dugi skammt til að tryggja fjölbreytni og nýsköpun í námsgagnagerð, sem er eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins. Þá gagnrýna samtökin að sama stofnun, Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu, hafi með höndum bæði þróun, staðfestingu og dreifingu námsefnis, sem torveldi samkeppni, dragi úr aðgengi nýrra aðila og geti leitt til einsleitni í efnisvali.
Skólasamfélagið kallar eftir fjölbreyttum lausnum
Í umsögninni er sérstaklega vísað til niðurstaðna könnunar Menntamálastofnunar frá árinu 2024 meðal kennara og skólastjórnenda. Þar kom fram að 65% svarenda töldu mikilvægt að hið opinbera starfaði í samstarfi við einkaaðila við gerð námsgagna. Skólasamfélagið kallar eftir fjölbreyttara og sérsniðnara námsefni sem endurspegli ólíkan bakgrunn, námsstíla og þarfir nemenda. Samtökin leggja áherslu á að styðja verði við þróun stafrænna lausna og einstaklingsmiðað námsefni og benda á að fjölmargar íslenskar menntatæknilausnir séu nú þegar til en séu vannýttar innan skólakerfisins.
Nauðsyn aukins sveigjanleika og nýsköpunar
Í umsögninni segir að núverandi fyrirkomulag námsgagnagerðar á Íslandi, þar sem megináherslan er á opinbera framleiðslu, samræmist ekki alþjóðlegum þróunaráherslum um aukna nýsköpun, fjölbreytni og sveigjanleika í menntun. Sérstök áhersla er lögð á að skýra þurfi betur í frumvarpinu að verklegur búnaður í iðn- og tæknigreinum, svo sem verkfæri og prófunartæki, falli einnig undir gjaldfrjálsan aðgang að námsgögnum.
Framfarir krefjast breytinga
Í umsögninni leggja samtökin áherslu á að framtíðarmenntun á Íslandi þurfi að byggja á auknu samstarfi ríkis og einkaaðila, aukinni nýsköpun og bættum aðgangi að fjölbreyttu námsefni. Ísland eigi að taka mið af alþjóðlegum fyrirmyndum þar sem opinberir aðilar tryggja gæðastaðla og aðgengi, en fjölbreyttir framleiðendur sjá um þróun og dreifingu námsefnis. Með því sé hægt að mæta betur breyttum þörfum nemenda og styðja við framþróun í íslensku menntakerfi.
Hér er hægt að nálgast umsögnina.