Fréttasafn



3. ágú. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Skortur á gagnatengingum hefur áhrif á erlendar fjárfestingar

Í Viðskiptablaðinu er sagt frá því að hagsmunaaðilar á Íslandi hafi gagnrýnt harðlega að ekki sé lögð meiri áhersla á eflingu erlendrar fjárfestingar hér á landi og uppbyggingu gagnavera á sama tíma og gríðarleg áhersla virðist vera lögð á málaflokkinn í nágrannaríkjum okkar. Greint er frá óbirtri skýrslu sem unnin var upp úr viðtölum sem tekin voru við gagnaversaðila sýnir að fyrirtækin veigra sér við því að koma með viðskipti sín hingað til lands vegna skorts á gagnatengingum við landið. Haft er eftir Einari Hansen Tómassyni, verkefnastjóra erlendra fjárfestinga hjá Íslandsstofu, að gagnastrengir við landið séu eins og hverjir aðra innviðir sem krafa er gerð um í nútímaumhverfi gagnavera. „Á Íslandsstofu eru þrjú og hálft stöðugildi sem hafa það hlutverk að laða til landsins erlenda fjárfestingu. Hvort það nægir verður bara hver að dæma um en við gerum okkar besta. Helmingurinn af starfi mínu undanfarin 13 ár hefur verið að laða til landsins erlenda sjónvarps- og kvikmyndagerðarmenn. Ég myndi giska á að um 25-30% af starfinu fari svo í vinnu tengdri gagnaverunum og svo restin í önnur verkefni.“

Þá er sagt frá því í blaðinu að Samtök iðnaðarins séu meðal þeirra sem hafa gagnrýnt íslensk stjórnvöld þegar kemur að gagnaverauppbyggingu hér á landi. Í skýrslu sem tekin var saman af samtökunum og ber nafnið: Nauðsyn bættra fjarskiptatenginga og hagræn áhrif gagnavera komi m.a. fram að ráðgjafarfyrirtækið Broad Group spái miklum vexti í norræna gagnaveraiðnaðinum á næstu árum. Þannig er því t.d. spáð að gagnaveraiðnaður Danmerkur muni á tveimur árum ríflega fjórfaldast í umfangi. Hins vegar er gert er ráð fyrir litlum sem engum vexti á íslenskum gagnaveraiðnaði fram til loka ársins 2017. Samkvæmt SI er það sem skilur Ísland að frá nágrannaþjóðum sínum í þessu tilliti að stjórnvöld í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi standi okkur framar í verkefnum sem snúa að innviðum og starfsumhverfi gagnavera.

Viðskiptablaðið, 3. ágúst 2018, vb.is.